Útflutningstekjur ferðaþjónustunnar á árinu 2014 voru 302 milljarðar króna samanborið við 241 milljarð króna vegna útflutnings sjávarútvegarins. Ferðaþjónustan er því orðin langstærsti útflutningsatvinnuvegur Íslendinga og skilar tæplega þriðjungi allra útflutningstekna. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka sem Fréttablaðið greinir frá.
Í greiningunni er áætlað að tekjur af ferðaþjónustu verði 342 milljarðar króna á þessu ári, eða 29 prósent af heildarútflutningatekjum. Það er því gert ráð fyrir 40 milljörðum króna til viðbótar í kassann vegna geirans en í fyrra, eða rúmlega 13 prósent aukningu á milli ára.
Í greiningunni er áætlað að tekjur af ferðaþjónustu verði 342 milljarðar króna á þessu ári, eða 29 prósent af heildarútflutningatekjum.
Vöxturinn hefur eðlilega haft mikil áhrif á atvinnulífið líka. Fólki sem starfaði við ferðaþjónustu og tengdar greinar fjölgaði um 2.700 á árinu 2014. Alls fjölgaði starfandi Íslendingum um 2.800 á því ári. Því eru vísbendingar um að vöxtur ferðaþjónustu beri ábyrgð á nær allri fjölgun starfa í fyrra. Í greiningu Íslandsbanka segir að rúmlega helmingur þeirra tíu þúsund starfa sem hafi skapast á Íslandi frá árinu 2010 hafi skapast í ferðaþjónustu. Samhliða hefur atvinnuleysi hríðlækkað og mældist 4,4 prósent í janúar síðastliðnum.
Ferðaþjónusta hafði úrslitaþýðingu fyrir þjóðarbúið
Í Morgunblaðinu í morgun er rætt við Yngva Harðarson, framkvæmdastjóra Analytica, sem segir að gjaldeyrisöflun ferðaþjónustunnar hafi haft úrslitaþýðingu fyrir gjaldeyrisjöfnum þjóðarbúsins í fyrra og komið í veg fyrir veikingu krónunar vegna halla á viðskiptum við útlönd. Það geri það að verkum að innflutt verðbólga er lægri.
Afgangur af þjónustuútflutningi var 138,8 milljarðar króna í fyrra á sama tíma og ellefu milljarða króna halli var á vöruskiptum. Þetta kom fram í tölum sem Seðlabankinn birti í gær. Þar sagði einnig að afgangur á þáttatekjum hafi mælst í fyrsta sinn frá því á þriðja ársfjórðungi ársins 2007, en jönuður frumtekna var hagstæður um 3,2 milljarða króna.
Ferðamenn verða 1,3 milljónir og góð hótelnýting
Heildarfjöldi erlendra ferðamanna sem komu til Íslands á árinu 2014 er er talin vera um 1,1 milljón. Tæplega ein milljón kom um Leifsstöð og um 121 þúsund með farþegarskipum. Í greiningu Íslandsbanka er gert ráð fyrir að 1,2 milljónir ferðamanna koma í gegnum Leifsstöð til landsins og að um 150 þúsund ferðamenn komi í gegnum aðra staði á landinu. Áætlar greiningardeildin að um 1.350 þúsund ferðamenn heimsæki Ísland á árinu sem er fjölgun um tæpan fjórðung. Samkvæmt þessu verða ferðamenn því fjórfalt fleiri en Íslendingar.
Áætlar greiningardeildin að um 1.350 þúsund ferðamenn heimsæki Ísland á árinu sem er fjölgun um tæpan fjórðung. Samkvæmt þessu verða ferðamenn því fjórfalt fleiri en Íslendingar.
Aukning er strax orðin sýnileg. Áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli voru rúmlega 50 prósent fleiri í febrúar 2015 en í sama mánuði árið 2013. Þá voru þær 486 en voru nú 764 talsins.
Mikið hefur verið rætt um fjölgun hótelherbergja undanfarin misseri, enda má vart sjást grasbali á höfuðborgarsvæðinu nema á honum sé byggt hótel. Í greiningu Íslandsbanka kemur hins vegar fram að 84% nýting hafi verið á hótelherbergjum á svæðinu í fyrra, sem er sögulegt hámark og betri nýting en í til dæmis London og Amsterdam. Áætlað er að um 4.500 hótelherbergi verði til á suðvesturhorni landsins í árslok 2016, eða þriðjungsfjölgun. Þrátt fyrir þá miklu fjölgun áætlar greiningardeild Íslandsbanka að þörf sé á þessum hótelrýmum og telur að nýtingarhlutfallið verði enn mjög hátt. Um 700 ný hótelherbergi munu fara í rekstur á árinu og mæta þar með aukinni eftirspurn eftir hótelgistingu á svæðinu.
Mikið hefur verið rætt um fjölgun hótelherbergja undanfarin misseri, enda má vart sjást grasbali á höfuðborgarsvæðinu nema á honum sé byggt hótel. Í greiningu Íslandsbanka kemur hins vegar fram að 84 nýting hafi verið á hótelherbergjum á svæðinu í fyrra, sem er sögulegt hámark og betri nýting en í til dæmis London og Amsterdam.