Erlendir ferðamenn á Íslandi greiddu alls 13,1 milljarð króna með greiðslukortum í maí. Það er 47 prósent meira en þeir greiddu með kortunum í maí 2014. Erlendir ferðamenn eru ekki aðeins fleiri heldur eyðir hver þeirra að meðaltali 8 prósent meira en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt gögnum Hagstofunnar um greiðslukortaveltu erlendra korta og Rannsóknarsetur verslunarinnar á Bifröst rýnir í.
Mest af fénu fer til innlendra ferðaskipuleggjenda, eða ríflega þrír milljarðar króna í maí. Kortavelta vegna gistingar nam 2,6 milljörðum króna og jókst um 44 prósent milli ára. Kortaverta ferðamanna í íslenskum verslunum jókst um 14 prósent milli maí 2014 og 2015, en alls eyddu ferðamennirnir 1,6 milljarði króna í verslunum. Þær verslanir sem eru í mestri sókn meðal erlendra ferðamanna eru gjafa- og minjagripaverslanir, samkvæmt Rannsóknarsetri verslunarinnar.
320 milljónir í skyndibita
Ef rýnt er í 1,5 milljarða króna neyslu ferðamannanna á veitingahúsum þá sést að um 318 milljónir króna fara í skyndibita. Þá keyptu ferðamennirnir drykki á börum og krám fyrir 156 milljónir króna í maí.
Það eru Rússar sem eyða mestu í veitingar en hver Rússi varði þrefalt meira á börum og krám en næsta þjóð, Kanadamenn, og fimmfalt meira en meðalferðamaðurinn.
Hér að neðan má sjá hvernig kreditkortavelta ferðamanna skiptist í maí eftir útgjaldaliðum.