Um fjörutíu prósent ferðamanna finnst of mikið af hópferðarmönnum við Geysi og Jökulsárlón. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Ferðamálastofu um þolmörk ferðamanna á átta vinsælum ferðamannastöðum á Suður- og Vesturlandi.
Niðurstöðurnar eru byggðar á viðhorfskönnun sem gerð var meðal ferðamanna síðastliðið sumar við Djúpalónssand, Geysi, Hakið á Þingvöllum, Hraunfossa, Húsadal í Þórsmörk, Jökulsárlón, Seltún og Sólheimajökul.
Samkvæmt könnuninni eru erlendir ferðamenn um 92 prósent þeirra gesta sem koma á staðina. Langflestir þeirra eru ánægðir með náttúruna og dvölina á stöðunum sem til skoðunar eru. Ánægja er einnig mikil með göngustíga, en hún er ekki eins mikil með aðra innviði og þjónustu. Gestir eru þó síður ánægðir með innviði og þjónustu við Geysi og Jökulsárlón, auk þess sem umhverfi Geysis þykir manngerðara en hinna staðanna.
Almennt þykir hreint á svæðunum en þó síst við Jökulsárlón. Fáir hafa orðið varir við skemmdir á náttúrunni af völdum ferðamanna sem og rusl, skemmdir á jarðmyndunum og gróðurskemmdir. Sú umhverfisröskun sem ferðamenn taka helst eftir er rof úr göngustígum og þá sérstaklega í Þórsmörk og við Geysi.
Meirihluti ferðamanna á áfangastöðunum átta finnst fjöldi ferðamanna hæfilegur. Jökulsárlón og Geysir skera sig þó úr hvað þetta varðar þar sem um 40 prósent ferðamanna þar þykir vera of mikið af hópferðamönnum og hópferðabílum. Um þriðjungi svarenda þar finnst of mikið af ferðamönnum almennt. Á Þingvöllum fannst 20 prósent þátttakenda vera of mikið af ferðamönnum almennt og 18 prósent gesta í Þórsmörk voru á sama máli. Um átta til ellefy prósent við Seltún, Sólheimajökul og Djúpalónssand fannst of mikið af ferðamönnum.