Tæplega 72 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í apríl síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 12.400 fleiri en í apríl á síðasta ári. Aukningin nemur 20,9 prósentum á milli ára. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Ferðamálastofu.
Þar kemur jafnframt fram að fjölgun ferðamanna á Íslandi hafi verið viðvarandi það sem af er ári, en þeim fjölgaði um 34,5 prósent í janúar, 34,4 prósent í febrúar og 26,8 prósent í mars.
Þróun á fjölda ferðamanna í aprílmánuði frá árinu 2002. Mynd: Ferðamálastofa
Tveir af hverjum fimm frá Bretlandi og Bandaríkjunum
Um þrír af hverjum fjórum ferðamönnum í apríl árið 2015 voru af tíu þjóðernum. Bretar voru fjölmennastir eða 26,4 prósent af heildarfjölda en næstir komu Bandaríkjamenn eða 15,2 prósent af heildarfjölda.
Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum og Bandaríkjamönnum mest milli ára en 3.269 fleiri Bretar komu í apríl í ár en í sama mánuði í fyrra og 3.179 fleiri Bandaríkjamenn. Bretar og Bandaríkjamenn báru uppi ríflega helmings aukningu ferðamanna í apríl milli ára, að því er fram kemur í áðurnefndri frétt frá Ferðamálastofu.
Það sem af er ári hafa 288.700 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 64.200 fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 28,6 prósenta aukningu milli ára. Þá fóru tæplega 36 þúsund Íslendingar utan í apríl síðastliðnum eða álíka margir og í apríl 2014.