Ungur notandi ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu skilaði sér ekki til síns heima síðdegis. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Strætó, sem send var fjölmiðlum undir kvöld, var brugðist við atvikinu í samræmi við alvarleika þess. Síðar kom í ljós að notandinn hafði farið til nágrannakonu í sama fjölbýlishúsi og hann býr. Samkvæmt fréttavefnum mbl.is er um að ræða ellefu ára gamla fatlaða stúlku, sem ekki var skilað heim til sín.
Samkvæmt fréttatilkynningunni, sem undirrituð er af Jóhannesi Rúnarssyni framkvæmdastjóra Strætó, hefur málið verið tekið til athugunar hjá neyðarstjórn ferðaþjónustu fatlaðra og Strætó enda er það litið alvarlegum augum. Þá segir í tilkynningunni að við fyrstu athugun hafi verklagsreglum ferðaþjónustunnar ekki verið fylgt þegar notandanum var ekið til síns heima án þess að koma honum í öruggar hendur foreldra.