Framleiðni á hvern starfsmann í ferðaþjónustu hefur í flestum atvinnugreinum ferðaþónustunnar dregist saman á síðustu árum, samkvæmt útreikningum greiningardeildar Arion banka. Hefur samdráttur orðið í framleiðni þrátt fyrir tvöfalt fleiri ferðamenn á sama tíma og störf í greinum tengdum ferðaþjónustu fjölgaði úr 11.600 í 16.700 frá 2008 til 2014. Þrátt fyrir að fjölgun ferðamanna umfram fjölgun starfa bendi til aukna framleiðni, þá er raunin oftast hið gagnstæða, að mati greiningardeildarinnar. Ekki er hægt að líta hrátt á tölur um fjölgun starfa og ferðamanna, þar sem starfsfólk í ferðaþjónstu þjónustar einnig Íslendinga.
Í nýjum Markaðspunktum, fréttabréfi greiningardeildarinnar, segir að framleiðsluvirði á hvern starfsmann sé hæst í flugi, enda krefjist sú grein mikilla fjárfestinga og eldsneytiskostnaður sé hlutfallslega hár. „Einnig virðist sem mesta framleiðniaukningin hafi orðið í flugi, en þar jókst framleiðsluvirði á hvern starfsmann um 6%. Í hinum atvinnugreinunum lækkaði framleiðsluvirði á hvern starfsmann, þó minnst í veitingaþjónustu. Vinnsluvirði á starfsmann hefur lækkað í öllum greinunum, hlutfallslega mest hjá ferðaskrifstofum þar sem það hefur fallið um helming.“ Myndin hér að neðan sýnir hvernig framleiðsluvirði og vinnsluvirði á starfsmann hefur breyst á síðustu árum.
Tölurnar eru sagðar í takt við ársreikninga stærsta ferðaþjónustufyrirtækisins, Icelandair Group. „Samkvæmt þeim eru tekjur á hvert stöðugildi að raunvirði árið 2014 nánast þær sömu og árið 2008, eða um 40 milljónir króna. Í ársreikningunum má einnig sjá að tekjur á starfsmann hjá Icelandair féllu um ríflega 7% að raunvirði milli 2013 og 2014.“
Samkeppni um að kenna?
„Við höfum nýlega bent á að framleiðni sé lítil á Íslandi miðað við flest nágrannaríki okkar og í því ljósi eru nokkur vonbrigði að sjá vísbendingar um minnkandi framleiðni vinnuafls í greinum tengdri ferðaþjónustu. Það lítur út fyrir að aðilar í ferðaþjónustu séu ekki enn að ná að nýta sér stærðarhagræði með fjölgun ferðamanna eins mikið og eflaust margir vonast til,“ segir í greiningunni. Spurt er hvort samkeppni haldi aftur af hagnaði ferðaþjónustufyrirtækja en einnig sé mögulegt að geirinn eigi eftir að aðlagast hraðri fjölgun ferðamanna.
„Staðreyndin er sú að margar undirgreinar ferðaþjónustu eru í eðli sínu miklar samkeppnisgreinar, sem heldur aftur af hagnaði fyrirtækja. Fyrirtæki í ferðaþjónustu keppa hart sín á milli, auk þess að keppa við erlend fyrirtæki og erlenda áfangastaði. Þar að auki er tiltölulega auðvelt fyrir nýja aðila að komast inn á markaðinn, t.d. í veitingaþjónustu og rekstur ferðaskrifstofa, þar sem slík starfsemi krefst hlutfallslega lítils fjármagns og aðgangshindranir vegna t.d. einkaleyfa eru takmarkaðar. Þetta hefur sést í erlendum rannsóknum þar sem samþjöppun t.d. á hótelmarkaði og í sölu pakkaferða í Bretlandi er tiltölulega lítil, með hliðsjón af Herfindahl vísitölunni. Vegna þessa ætti framleiðni vinnuafls í ferðaþjónustu að fylgja almennri þróun í hagkerfinu, en framleiðni á Íslandi hefur aðeins vaxið um ca. 3% að meðaltali á ári frá aldamótum. Einnig er mögulegt að ferðamannageirinn sé enn að aðlagast hraðri fjölgun ferðamanna og hagræðing eigi eftir að koma fram. Ekki liggja fyrir tölur eftir 2013 en mögulega hefur þetta þróast til betri vegar síðan þá með aukinni stærð ferðaþjónustunnar. Þó gefa ofangreindar tölur um tekjur á starfsmann hjá Icelandair ekki tilefni til að ætla að svo hafi verið.“