Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, sakar borgaryfirvöld í Reykjavík um að taka „íbúa miðbæjarins í gíslingu í tæpan sólarhring og taka bifreiðar langt að kominna úthverfisbúa í gíslingu“ á Menningarnótt. Þetta er gert í grein á vefsíðu félagsins, sem segir að borgaryfirvöld vilji gera bíla útlæga og að fólk lifi lífinu án bíla.
Tilefnið er að ákveðið var að hafa stóran hluta miðbæjarins lokaðan fyrir bílaumferð á Menningarnótt, líkt og tíðkast hefur undanfarin ár. Fréttir hafa borist af því að um þúsund bílum hafi verið lagt ólöglega og því fengið sektir fyrir stöðubrot.
FÍB segir að með þessu hafi íbúar í miðbænum verið „læstir inni“ og verið bannað að nota heimilisbíla sína „þótt líf lægi við“. Þá hafi íbúar úthverfanna fengið svipað valdboð. „Þeim var ýmist sagt að ganga, hjóla eða taka strætisvagna til að komast í miðbæinn, eða koma á bílnum á tiltekna staði þar sem þeir gætu lagt bílum sínum í stæði og tekið strætó seinasta spölinn í miðbæinn.“ FÍB heldur því fram að þessi stæði hafi fyllst fljótt og „samviskusamir úthverfabúar“ sem hafi lagt ólöglega hafi fengið að kenna á því með háum sektum. „Ekkert hafði verið gert í því að mæta því augljósa og skilgreina tímabundin bílastæði á opnum svæðum við útjaðra miðbæjarins.“
Vel kynnt lokun
Allar þær götur sem voru lokaðar fyrir bílaumferð á Menningarnótt í ár voru líka lokaðar í fyrra. Reykjavíkurborg kynnti lokanirnar fyrir öllum íbúum miðborgarinnar með því að senda þeim bréf heim í vikunni fyrir Menningarnótt, auk þess sem nokkrar fréttir voru skrifaðar um málið á vefsíðu borgarinnar og vefsíðu Menningarnætur. Þá kynntu lögreglan og fjölmiðlar þessar lokanir. Að sama skapi var kynnt að ókeypis yrði í strætisvagna þennan dag, og að vagnanir myndu aka lengur en venjulega til að koma öllum heim eftir að dagskrá lyki. Þá var einnig boðið upp á skutlur af stórum bílastæðum við Kirkjusand og Borgartún.
Í viðtali við Fréttablaðið í gær sagði Kolbrún Jónatansdóttir, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs, að um tíu starfsmenn sjóðsins hefðu skrifað sektir á Menningarnótt, sem er sami fjöldi og undanfarin ár. Sektirnar urðu þúsund, sem er líka eins og síðustu ár. Hún sagðist ekki hafa heyrt af mörgum ósáttum ökumönnum vegna þessa.