Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) vill að innanríkisráðherra feli Neytendastofu að rannsaka iðgjöld bílatrygginga hjá tryggingafélögunum. FÍB hefur ástæðu til að ætla að afnám vörugjalda af varahlutum bíla og lækkun virðisaukaskatts eftir áramót komi ekki fram í lægri iðgjöldum bílatrygginga. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem barst fjölmiðlum síðdegis frá FÍB.
Fréttatilkynningin í heild sinni
FÍB hefur ástæðu til að ætla að afnám vörugjalda af varahlutum bíla og lækkun virðisaukaskatts eftir áramót komi ekki fram í lægri iðgjöldum bílatrygginga. Margir eru með endurnýjun á tryggingum um áramótin og iðgjöld eru ákveðin ár fram í tímann. Lausleg könnun FÍB meðal bíleigenda gefur til kynna að iðgjöld hafi ekki lækkað eins og lög gera ráð fyrir, heldur ýmist hækkað eða staðið í stað. Á árinu sem var að líða hækkuðu iðgjöld ökutækjatrygginga langt umfram verðbólgu þrátt fyrir fækkun alvarlegra umferðarslysa.
FÍB telur tilefni til að iðgjöld tryggingafélaganna verði tekin til rannsóknar, þar sem ástæða er til að óttast að jákvæðar ytri aðstæður í ökutækjatryggingum séu ekki að skila sér til neytenda.
FÍB beinir því til innanríkisráðherra að fela Neytendastofu að hefja rannsókn á tryggingafélögunum þegar í stað. Alla jafna ætti slík rannsókn heima hjá Fjármálaeftirlitinu (FME) en sú stofnun er í mjög óeðlilegri stöðu. FME á að tryggja að tryggingafélögin séu fjárhagslega burðug til að mæta áföllum en jafnframt á stofnunin að sjá til þess að ekki sé verið að innheimta of há iðgjöld af lögbundnum tryggingum. Fyrra hlutverkið virðist vega þyngra en það síðara hjá FME. FÍB telur eðlilegt að svona rannsókn sé framkvæmd af Neytendastofu enda snertir þetta hagsmuni neytenda.
Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 0,81% síðustu 12 mánuði. Á sama tíma hafa iðgjöld ábyrgðartrygginga ökutækja hækkað um 4,28% og iðgjöld kaskótrygginga um 1,62%. Á nýbyrjuðu ári lækkar kostnaður tryggingafélaganna vegna ökutækjatjóna, þar sem 15% vörugjald af innfluttum varahlutum verður aflagt og virðisaukaskattur á viðgerðarvinnu, varahluti og nýja bíla lækkar um tæp 6%. Ekkert bendir til að tryggingafélögin hafi tekið tillit til þessarar kostnaðarlækkunar við útgáfu iðgjalda fyrir næsta ár.
Ekki þarf að hafa mörg orð um áhrif þess þegar afnám vörugjalda og lækkun virðisaukaskatts skilar sér ekki til neytenda. Þessum breytingum er ætlað að vega upp á móti hækkun í neðra þrepi skattsins. Tryggingaiðgjöld vega einnig þungt í vísitölu verðtryggingar. Af þessum ástæðum er mikilvægt að ítarleg rannsókn fari fram sem fyrst á hegðun tryggingafélaganna í þessum efnum.