Um þessar mundir eru fimm ár frá því að rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið skilaði af sér skýrslu sinni. Í nefndinni sátu Páll Hreinsson, prófessor í lögfræði og dómari, dr. Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Kjarninn rifjar á næstunni upp eftirminnileg atriði sem fram komu fyrst fyrir sjónir almennings, þegar skýrslan var gerð opinber, en hún er langsamlega ítarlegasta gagn sem tekið hefur verið saman um orsakir fyrir falli bankanna, og aðgerðir sem gripið var til, bæði innan bankanna sjálfra og innan stjórnkerfisins.
Tryggvi Pálsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands
Tryggvi Pálsson.
„Þegar hér var komið við sögu höfðu engir aðrir starfsmenn Seðlabankans komið að málinu. Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, sem stýrt hafði viðbúnaðarstarfi bankans og verið fulltrúi bankans ásamt Ingimundi í sérstökum samráðshópi stjórnvalda var í fríi erlendis um þetta leyti. Hann var ekki kallaður til og í tölvubréfi sem Tryggvi sendi rannsóknarnefnd Alþingis 24. nóvember 2009 segir m.a.: „Ég var í fríi erlendis 22.–29. sept. 2008. Á þeim tíma var ekki leitað til mín um ráð né ég beðinn um að flýta heimferð minni. Ingimundur hringdi þó til mín kvöldið fyrir heimkomuna til að láta mig vita um ákvörðunina varðandi Glitni og fréttamannafundinn.“
Hvar er hann nú?
Formaður bankaráðs Landsbanka Íslands.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
„Hér skal þess getið að við skýrslutöku kannaðist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki við annað en að Geir hefði sagt sér að það væri „einhver óróleiki á fjármálamörkuðum“ og að hann hygðist kanna stöðu mála á Íslandi. Ingibjörg sagði að það næsta sem hún hefði heyrt af málinu hefði verið sunnudaginn 28. september 2008 þegar Gestur Jónsson, hrl., hefði hringt í sig og spurt hvort hún vissi hvað væri að gerast í forsætisráðuneytinu. Hefði hún þá hringt í Geir H. Haarde sem hefði sagt henni að staðan væri „alvarleg hjá Glitni“ og að hún þyrfti að tilnefna staðgengil til að sækja fundi á Íslandi.“
Hvar er hún nú?
Umdæmisstjóri UN Women í Evrópu og Mið-Asíu.
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans
Sigurjón Þ. Árnason.
„Síðar um daginn fundaði Yves Mersch með forsvarsmönnum hvers banka fyrir sig. Eða eins og Sigurjón Þ. Árnason skýrði frá "ræddu þeir við hvern bankann á fætur öðrum og útskýrðu það að Seðlabanki Evrópu væri ekki "lender of last resort", við ættum að versla við Seðlabanka Íslands. Og að við værum ekki partur af Evrópubandalaginu [...] Hann fór bara röklega yfir málin, hann var ekki með nein leiðindi." Sigurjón sagði jafnframt að það hefði komið fram að þeir væru "highest bidders" í evrópska veðlánakerfinu, og sagði hann að það hefði komið honum nokkuð á óvart, "við vissum ekki af því, en við vildum auðvitað tryggja að við misstum ekki fjármögnunina að sjálfsögðu." "Hann sagði að við þyrftum að borga til baka og við sögðum OK, þá verðum við bara að gera það. Maður hugsaði að þetta væri nú ekki það sem íslenska kerfið þyrfti á að halda að þarna væri búið að takmarka enn frekar fjármunaöflun okkar. En við hugsuðum, þetta er þá bara svona, þá gerum við þetta bara, ekki getum við slegist við þá.“
Hvar er hann nú?
Sinnir ráðgjastörfum, og hefur verið ákærður fyrir meint lögbrot og dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur. Mál bíða þess að verða tekið fyrir í Hæstarétti.
Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður stjórnar Seðlabanka Íslands
Davíð Oddsson.
„Aftur er nú vikið að almennri umfjöllun um veðlán bankanna í Seðlabankanum í Evrópu. Í lok júní 2008 var Davíð Oddsson staddur í Basel í Sviss og hitti hann þá Yves Mersch, seðlabankastjóra Lúxemborgar (BCL). Davíð Oddsson lýsti fyrstu kynnum þeirra, við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, á eftirfarandi hátt: "[É]g hafði ekki hitt hann en þá var ég kynntur fyrir honum og er rétt búinn að heilsa honum og segja eitthvað svona nice-tískt – fallegt veður í Basel eða eitthvað – og þá segir hann bara svona: Þitt bankakerfi – eins og það hét – er í miklum ógöngum reyndi Davíð að fá útskýringu seðlabankastjórans á þessum orðum sem sagði þá að "hann teldi að íslenska bankakerfið væri á hraðri leið til glötunar og ætti enga von og hann markaði það af því hvernig þeir væru að reyna að ná í peninga í gegnum Lúxemborg frá Seðlabanka Evrópu.“
Hvar er hann nú?
Ritstjóri Morgunblaðsins.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings
Hreiðar Már Sigurðsson.
„Á tímabilinu 29. ágúst til 8. október 2008 lánaði Kaupþing því 510 milljónir evra í þessi skuldatryggingarviðskipti ef undanskildar eru 50 milljónir dollara sem nefndar eru hér á undan. Þessar 510 milljónir evra fóru beint til Deutsche Bank. Ekkert eigið fé kom þarna til heldur var þetta allt fjármagnað af Kaupþingi. Með þessum viðskiptum var því búið að flytja skuldabréfaáhættu Kaupþings yfir á Kaupþing. Hreiðar Már Sigurðsson sagði við skýrslutöku að það hefði ekki verið neitt nema hagnaðarvon hjá viðskiptavinum bankans sem seldu þessar skuldatryggingar, það er ef bankinn færi í greiðsluþrot þá væri hagnaður núll en ef hann væri enn í rekstri í október 2013 þá myndu þessir viðskiptavinir hagnast. Því til viðbótar sagði Hreiðar: "Ja, þetta var, við töldum að þetta væri þess virði að gera þetta, eins og ég segi, við töldum að við værum að nota fjármuni bankans á ágætlegan hátt, fá ágætis tekjur af þeim fjármunum.Við töldum að það væri mikilvægt að athuga hvort þessi markaður væri raunverulegur eða ekki og við töldum að þetta væri gott fyrir þessa viðskiptavini, sem voru stórir viðskiptavinir og borguðu okkur fullar þóknanir og skulduðu okkur náttúrulega peninga, svo það að staða þeirra mundi batna væri gott fyrir bankann.“
Hvar er hann nú?
Hann er í fangelsi, eftir að hafa hlotið dóm í Al Thani málinu. Fleiri mál bíða þess að verða til lykta leidd í dómskerfinu.