Fimm þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram frumvarp um um breytingar á lögum um tekjuskatt þess efnis að þeir sem hafa ekki náð 34 ára aldri verði „heimilt að stofna einn húsnæðissparnaðarreikning sem veitir rétt til skattaafsláttar. [...]Hver maður getur aðeins átt einn húsnæðissparnaðarreikning“.
Skattaafslátturinn sem veita ætti vegna húsnæðissparnaðar á samkvæmt frumvarpinu að vera 20 prósent af innleggi hvers tekjuárs en aldrei yfir 200 þúsund krónur. Þingmennirnir fimm sem leggja fram frumvarpið eru Elsa Lára Arnardóttir, Karl Garðarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Haraldur Einarsson.
Bundnir til tíu ára með undantekningum
Húsnæðissparnaðarreikningar eiga að vera bundnir til tíu ára frá fyrstu innlögn, en reikningseigandinn getur þó fengið aðgang að upphæðinni á honum eftir tvö ár sýni hann fram á að hann ætli sér að kaupa, byggja eða endurbæta íbúðarhúsnæði.
Þetta er í fjórða sinn sem frumvarpið er lagt fram, en það hefur aldrei hlotið efnislega meðferð. Í greinargerð sem fylgir því segir: „sams konar átak var gert með lögum nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga, sem úr gildi eru fallin en af þeim er tekið mið í þessu frumvarpi, þó með nokkrum breytingum. [...]Þess í stað er ráðherra falið að setja nánari reglur bæði um form og efni sem ætla verður að hann geri að höfðu samráði við Samtök fjármálafyrirtækja og aðra hlutaðeigandi aðila. Einnig er lagt til að vaxtatekjur af umræddum reikningum verði undanþegnar fjármagnstekjuskatti“.