Þorsteinn Hjaltested er ekki eini réttmæti erfingi landsins Vatnsenda í Kópavogi, samkvæmt dómi Hæstaréttar frá því í dag. Hann er hins vegar einn af fimmtán erfingjum.
Þorsteinn tók við jörðinni í samræmi við erfðaskrá sem frændi hans, Magnús Einarsson Hjaltested, gerði. Þegar Magnús dó erfði Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested jörðina. Þegar hann lést svo árið 1966 fór sonur hans af fyrra hjónabandi, Magnús, fram á að fá jörðina, sem hann fékk á endanum. Þorsteinn er elsti sonur Magnúsar.
Málið hefur verið fyrir dómstólum í mörg ár, en aðrir erfingjar hafa reynt að fá erfðaskránni hnekkt frá 2007. Árið 2013 dæmdi Hæstiréttur að skiptum á dánarbúi afa Þorsteins, Sigurðar Kristjáns, hefði aldrei lokið og því þyrfti að ljúka skiptum. Skiptastjórinn sem það gerði taldi sig þurfa að gera það í samræmi við erfðaskránna og að Þorsteinn væri réttmætur erfingi.
Þessi ákvörðun var kærð en héraðsdómur staðfesti niðurstöðu skiptastjórans. Hæstiréttur snéri þeirri ákvörðun hins vegar við með dómi sínum í dag, og segir að beinn eignaréttur á jörðinni skuli skiptast eftir almennum reglum. Þá eru eigendur jarðarinnar orðnir 15 talsins, en ekki Þorsteinn einn. Hann á hins vegar afnotarétt á jörðinni einn. Dómur Hæstaréttar er hér.
Nú þarf því að skipta búi Sigurðar Kristjáns aftur. Kópavogsbær hefur tekið stóran hluta jarðarinnar eignarnámi og hefur greitt Þorsteini milljarða króna í eignarnámsbætur vegna þess.