Eyþór Björnsson Fiskistofustjóri segir að vísbendingar séu um að stofnunin sé byrjuð að liðast í sundur vegna langvarandi óvissuástands um framtíð stofnunarinnar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Eins og fram hefur komið í fréttum verður Fiskistofa ekki flutt norður til Akureyrar á þessu ári eins og til stóð. Í samtali við Morgunblaðið segir Eyþór að ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að fresta flutningi stofnunarinnar ekki hafa komið á óvart.
„Það sem kom mér hins vegar gjörsamlega í opna skjöldu og verulega á óvart voru þau orð ráðherrans, að hann legði ekkert höfuðkapp á að koma frumvarpinu um flutning á Fiskistofu í gegn á yfirstandandi þingi,“ segir Eyþór í samtali við Morgunblaðið.
Eyþór segir að sér lítist illa á að ekki sé stefnt á að koma frumvarpinu í gegn á yfirstandandi þingi. „Ástæðan fyrir því er sú að við þolum ekki þessa óvissu lengur. Það er annaðhvort að hætta við flutninginn eða taka skrefið og klára það að taka ákvörðun. Við erum búin að vera í heljargreipum óvissunnar frá því í júní í fyrra. Við höfum ekki getað ráðið í allar stöður sem hafa losnað og verið í endalausum reddingum, þegar fólk hefur hætt, til þess að setja undir lekana og bjarga okkur tímabundið, af því að við höfum alltaf verið að bíða eftir niðurstöðu,“ er haft eftir Eyþóri í frétt Morgunblaðsins.
Fiskistofustjóri segir að ítrekað hafi verið fullyrt í sín eyru að ekki yrði hvikað frá áformum um flutning stofnunarinnar til Akureyrar. „Mér var talin trú um það fram í desembermánuð í fyrra að lög yrðu sett fyrir áramót og ákvörðun tekin. Bæði fram að því og síðan hef ég ítrekað vakið athygli á því að það séu blikur á lofti. Það hringja hér viðvörunarbjöllur um alla stofnun, vegna þess að við erum að missa út fólk. Það eru ákveðnar vísbendingar um það að stofnunin sé að byrja að liðast í sundur vegna þessa langdregna óvissuástands. [...] Það er ekki hægt að bíða lengur. Ef menn ætla að bíða með lagasetningu fram á haustþing og setja lög fyrir áramót, þá verður þessi stofnun farin á hliðina,“ segir Eyþór Björnsson í samtali við Morgunblaðið.