Innlausn hlutdeildarskírteina í hlutabréfasjóðum var 1,1 milljarði króna umfram sölu hlutdeildarskírteina í maí, samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans. Er þetta annan mánuðinn í röð þar sem fjárfestar sýna minnkandi áhuga á hlutabréfasjóðum en þróunin hefur á síðustu árum að mestu leyti verið á hinn veginn, þar sem sala hlutdeildarskírteina hefur verið umfram innlausn. Á sama tíma, á allra síðustu mánuðum, virðist hins vegar áhugi fjárfesta á skuldabréfasjóðum hafa aukist. Frá febrúar til maí 2015 hefur sala í skuldabréfasjóðum verið umfram innlausn hlutdeilarskírteina. Þróunin var að mestu leyti öfug við það fyrir febrúar.
Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag þar sem rýnt er í þessa þróun. Sagt er að þessi fjárfestingavilji samræmist ekki þróun á markaði. Í apríl og maí hækkaði verð hlutabréfa en gengisvísitala ríkisskuldabréfa lækkaði nokkuð. „Frá ársbyrjun og til loka maí var ávöxtun hlutabréfa eins og hún er mæld með Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar (OMXI8) rúm 10% en ávöxtun ríkisskuldabréfa eins og hún er mæld með vísitölu kauphallarinnar (NOMXIBB) einungis um 2,2%. Mikill hluti hækkunar hlutabréfa kom til í apríl og maí en yfir það tímabil hækkuðu hlutabréf um 7,6%,“ segir í greiningunni.
Ástæðan óljós
Það kann að vera að fjárfestar hafi yfirgefið hlutabréfasjóði af hræðslu við áhrif fyrstu skrefa í losun fjármagnshafta og að þeir teldu óróa í kringum kjarasamninga hafa neikvæð áhrif á gengi skráðra félaga, segir í greiningunni. Ástæðan sé þó í sjálfu sér ekki augljós. „Eins er mögulegt að aðrar fjárfestingar hafi tosað til sín fjármagn t.d. nýskráningar Eik og Reita.“
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar, OMXI8, hefur hækkað um nærri 13 prósent frá ársbyrjun. Í greiningu bankans er litið til ávöxtunar einstakra hlutabréfasjóða yfir sama tímabil, og sagt að fjölmargir sjóðir hafi gefið betri ávöxtun en 13 prósent. „Í því tilliti er þó eðlilegt að hafa í huga að eignasamsetning sjóðanna getur verið mjög misjöfn og hafa þeir t.a.m misjafnt hlutfall óskráðra eigna.“