Hópur alþjóðlegra fjárfesta hefur skrifað undir viljayfirlýsingu um að kaupa 95 prósent hlut slitabús Glitnis í Íslandsbanka fyrir erlendan gjaldeyri. Skrifað var undir hana í síðustu viku. Um er að ræða ríkisfjárfestingasjóði frá Mið-Austurlöndum. Þetta kemur fram í DV í dag.
Kjarninn greindi frá því í lok janúar að söluferlið væri langt komið og að vonir stæðu til þess að skrifað yrði undir viljayfirlýsingu fyrir febrúarlok. Það hefur nú gengið eftir. Ef af sölunni verður mun slitastjórn Glitnis fá erlendan gjaldeyri fyrir hlut sinn í bankanum og innlendar eignir þrotabús Glitnis lækka um það sem nemur kaupverðinu. Miðað við bókfært virði á hlut Glitnis í Íslandsbanka gæti það verið um 150 milljarðar króna. Gangi áformin eftir gæti sölunni á Íslandbanka lokið um mitt þetta ár. Áformin voru kynnt fyrir ráðgjöfum stjórnvalda á fundi með þeim í desember síðastliðnum.
Kaupin yrðu enda bundin því að íslensk stjórnvöld myndu blessa þau. Auk þess þyrfti að semja um hvers kyns hömlur yrðu settar á arðgreiðslur bankanna til erlendra eigenda á meðan að fjármagnshöft eru við lýði. Þá þarf að taka pólitíska afstöðu til þess hvort vilji sé til að selja íslenskan banka til erlendra fjárfesta.
Stærstu kröfuhafar Glitnis eru erlendir vogunar- og fjárfestingasjóðir.