Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, kvaðst aðspurð í Kastljósi RÚV í kvöld ekki geta svarað því hvort nýgerður fjárfestingasamingur hennar fyrir hönd ríkisins við fiskeldisfyrirtækið Matorku eigi sér fordæmi.
Matorka hyggst koma á fót 3000 tonna bleikjueldi á Reykjanesi, en félagið mun fá samkvæmt umfjöllun Kastljósins fá ívilnanir á bilinu 35 til 60 prósent af fjárfestingu þeirra í eldinu. Fjallað var um fjárfestingasamning ríkisins við félagið í Viðskiptablaðinu fyrir helgi.
Ríflegar ívilnanir
Samkvæmt samningnum fær félagið fær afslátt af fjölda skatta og gjalda. Tekjuskattsprósentan verður 15 prósent, á meðan önnur fyrirtæki greiða 20 prósenta tekjuskatt. Þá fær félagið helmingsafslátt af tryggingagjaldinu og lögbundnu hámarki fasteignagjalda, undanþágur vegna greiðslu aðflutningsgjalda, hagstæðari fyrningareglur, ívilnanir vegna virðisaukaskatts af innflutningi og sérstakan þjálfunarstyrk fyrir starfsmenn. Allar ívilnanirnar eiga sér fordæmi í fjárfestingasamningum ríkisins vegna stóriðju, gagnaver, kísilver og önnur fyrirtæki.
Hlutfall ívilnanna af heildarfjárfestingu félagsins, sem hyggur á samkeppni við fjölda íslenskra fyrirtækja sem fyrir eru í bleikjueldi, hefur vakið athygli. Samkvæmt Viðskiptablaðinu nemur það að lágmarki 35 prósent en allt að 60 prósentum. Andvirði ríkisstyrksins hleypur á 430 milljónum króna á meðan heildarfjárfesting Matorku vegna bleikjueldisins við Grindavík er áætluð um 1.200 milljónir króna. Að meðtöldum áðurnefndum þjálfunarstyrk, þar sem kostnaður getur numið allt að 295 milljónum króna, en þá slagar hlutfall ívilnanna af fjárfestingunni upp í 60 prósent.
Skekkir samkeppni
Í samtali við Kastljósið sagði Höskuldur Steinarsson, formaður samtaka fiskeldisfyrirtækja, það skjóta skökku við að ríkið leggi einu fyrirtæki til miklar ívilnanir á sama tíma og fyrirtæki sem hafi byggt upp framleiðslu sína og markað án þess að hafa notið viðlíkra styrkja. Höskuldur benti á í Kastljósinu að áætluð ársframleiðsla Matorku sé álíka og öll bleikjuframleiðsla á Íslandi á ársgrundvelli. Fyrirætlanir Matorku feli í sér að heimsframleiðslan aukist um helming, en Íslendingar framleiða 65 prósent allrar bleikju í heiminum. Fyrirætlanirnar muni augljóslega hafa áhrif á markað fyrir afurðirnar og þannig vinni ríkið í raun gegn afurðunum.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, sagði fjárfestingasamning ríkisins við Matorku sambærilegan við aðra slíka samninga sem gerðir hafa verið til að laða erlenda fjárfestingu til landsins og til að skapa skilyrði í samkeppni við aðrar þjóðir. Þá sagðist hún ekki hafa áhyggjur af því að ívilnanir til fyrirtækisins skekki samkeppnisstöðu í geiranum og bætti við að önnur fyrirtæki geti sömuleiðis leitað eftir slíkum samningum hyggi þau á fjárfestingu.
Eigendur tengdir fjármálaráðherra
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum eru helstu eigendur Matorku þeir Benedikt Einarsson og Eiríkur Svavarsson. Benedikt er frændi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og fyrrverandi viðskiptafélagi hans á árunum fyrir hrun. Þá er Benedikt hluthafi í Thorsil, sem hlaut nýverið fjárfestingasamning við ríkið vegna kísilvers á Reykjanesi og þá á hann hlut í félaginu sem keypti Borgn af Landsbananum nýverið, og Kjarninn sagði frá fyrstur fjölmiðla.
Eiríkur Svavarsson er hæstaréttarlögmaður og átti sæti í haftahópi stjórnvalda þar til nýlega, en þangað var hann ráðinn af Bjarna Benediktssyni. Eiríkur var áberandi í samtökunum InDefence og hefur meðal annars gegnt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Garðabæ. Eiginkona hans er einn stofnenda Matorku.
Viðbót klukkan 13:11 18. mars 2015:
Benedikt Einarsson, lögmaður og fjárfestir, segist ekki eiga neinn eignarhlut, hvorki beint né óbeint, í Matorku ehf. eða svissneska félaginu Matorku Holding AG. Í tölvupósti sem Benedikt sendi Kjarnanum segir: „Ég sit í stjórn Matorku Holding AG fyrir hönd hluthafa sem heitir P126 ehf., en það félag er að fullu í eigu föður míns, Einars Sveinssonar, í gegnum erlent eignarhaldsfélag hans. P126 á tæplega 5% í Matorku og því ekki meirihlutaeigandi (Mig minnir jafnframt að hlutur Eiríks Svavarssonar og hans konu sé undir 20%). Ég er ekki heldur, hvorki beint né óbeint, hluthafi í Borgun eða Thorsil.“