Um klukkutíma áður en til stóð að loka útvarpsstöðinni Radio Iceland, í eigu Adolfs Inga Erlingssonar, var gengið frá samkomulagi við fjárfesti em tryggir áframhaldandi rekstur stöðvarinnar. Að minnsta kosti um sinn. Frá þessu er greint á Vísi.
YEEEEEEESSSS. You heard riiight. We are OOOOOOONN for at least another month. Literally saved by the bell. WooooohoooooPosted by Radio Iceland on Tuesday, June 30, 2015
Radio Iceland tilkynnti í stöðuuppfærslu á Facebook að stöðin myndi hætta starfsemi á miðnætti í gær nema að kraftaverk myndi gerast. Þar sagði að starfsfólk hafi gefið sig allt í að reyna að halda stöðinni gangandi svo að fólk í útlöndum, ferðamenn á Íslandi og fólk sem hér býr en talar ekki íslensku gæti fylgst með því sem gerist á Íslandi. Það hafi ekki gengið, innkoman hafi ekki dugað fyrir útgjöldum og styrktaraðilum hafi fjölgað of hægt.
Útvarpsstöðin fór í loftið á hádegi þann 16. febrúar síðastliðinn og hleypti Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, stöðinni formlega af stokkunum. Allt dagskrárefni hefur verið á ensku frá upphafi.
Adolf Ingi segir í samtali við Vísi að svo virðist sem fólk hafi ekki viljað sjá stöðina hætta útsendingu og fjárfestir hafi fengist inn í reksturinn sem vilji taka þátt í rekstrinum. Hann vill ekki greina frá því hver fjárfestirinn er en segir að um sé að ræða einn margra sem hafi haft samband eftir að fréttir um yfirvofandi lokun stöðvarinnar voru sagðar. Adolf Ingi segir ennfremur að stöðin sé ekki langt frá því að standa undir sér, vandamálið sé uppsöfnuð skuld frá því að hún byrjaði útsendingar.