Hluti fjárkúgunarbréfsins sem sent var Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, á föstudaginn síðastliðinn var samansettur úr stafaúrklippum. Frá þessu er greint á Vísi.is. Bréfið var því að hluta til handskrifað og að hluta til samansett úr stafaúrklippunum.
Systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand hafa játað aðild sína að málinu en að sögn Malínar var það Hlín sem sendi bréfið í þeim tilgangi að kúga fé af forsætisráðherra og eiginkonu hans. Í bréfinu, sem var handskrifað og samsett úr stafaúrklippum, voru leiðbeiningar um hvernig afhenda skyldi peningana sunnan Vallahverfis í Hafnarfirði. Þegar þær fóru að sækja peningana þangað voru þær handteknar af lögreglu. Í kjölfarið voru þær yfirheyrðar í sólarhring og húsleit var gerð á heimilum þeirra beggja, þar sem hald var meðal annars lagt á tölvur þeirra.
Í bréfinu var því hótað að viðkvæmar upplýsingar um forsætisráðherra yrðu gerðar opinberar ef ekki yrði gengið að kröfum bréfritara. Koma átti upplýsingunum til fjölmiðla og sagðist bréfritarinn geta tryggt að umfjöllun þeirra yrði hin versta. Því átti hann að sögn að greiða nokkrar milljónir króna til að komast hjá því.