Fjárlaganefnd Alþingis sendi forsvarsmönnum RÚV tölvupóst þann 7. maí síðastliðinn, þar sem nefndin fer fram á að fá afhend gögn sem RÚV afhenti samráðshópi ráðuneytanna, sem skipaður var vegna fjárhagsvanda félagsins, og lágu meðal annars til grundvallar þegar RÚV var veitt skilyrt 181,9 milljóna aukafjárveiting á síðasta ári.
Um er að ræða tvær skýrslur, frá endurskoðunarfyrirtækjunum Deloitte og PwC um fjárhagsstöðu RÚV, upplýsingar um kostnað við breytingar á yfirstjórn félagsins sem og öll önnur gögn sem samráðshópur ráðuneytanna hefur nú þegar fengið.
Fjárlaganefnd ítrekaði erindi sitt til RÚV á föstudaginn, þar sem einnig kom fram að nefndarmenn teldu sig ekki hafa brotið trúnað með því að ræða nýlega kynningu stjórnar RÚV fyrir nefndinni opinberlega í desember, en RÚV sendi nefndinni athugasemd þess efnis.
Í ítrekun fjárlaganefndar til RÚV er sömuleiðis óskað eftir upplýsingum um kjarasamning sem félagið gerði nýverið við tæknimenn sína.
Fyrrgreind aukafjárveiting til RÚV upp á 181,9 milljónir króna, var háð þeim skilyrðum að fram færi vinna við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins. Þá yrði útborgun fjárins sömuleiðis háð því að „haldbærar rekstraráætlanir séu lagðar fram þar sem fram komi hvernig starfsemi stofnunarinnar verði komið á réttan kjöl og hún verði sjálfbær til frambúðar,“ eins og segir í nefndaráliti fjárlaganefndar vegna aukafjárveitingarinnar.
„Framlög til RÚV hafa hækkað um 500 milljónir á ársgrundvelli eftir að þessi ríkisstjórn tók við, en samt sem áður eru veruleg fjárhagsvandræði hjá stofnuninni. Það er hlutverk fjárlaganefndar að hafa eftirlit með fjárlögum. Það er ekki hægt að sinna því verkefni nema með því að hafa upplýsingar, þess vegna köllum við eftir þessum upplýsingum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, í samtali við Kjarnann.