Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, segir að fjármagnshöftin séu fyrir hagkerfið eins og „að taka inn rottueitur í smáum skömmtum“, einkennin komi ekki fram strax og finnist ekki í fyrstu frá degi til dags, en til lengdar hafi fjármagnshöftin „mjög alvarlegar afleiðingar“. Hann segir nauðsynlegt að horfa til þess að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og halda skuldum heimilanna í skefjum, þegar höftin verða afnumin.
Þetta kemur fram í umfjöllun Bloomberg um fjármagnshöftin. Í umfjölluninni er rætt við fólk hér á landi um afleiðingar fjármagnshaftanna á íslenska hagkerfið.
Eins og fram hefur komið er nú unnið markvisst að því að leita leiða, til þess að koma íslenska hagkerfinu úr haftabúskap, og er sérstakur framkvæmdahópur um afnám hafta, að störfum með þetta að markmiði. Ekki liggur fyrir enn hvaða leið verður farin í þessum efnum, en fram hefur komið í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og Bjarna Benediktsstonar að leysa þurfi úr málefnum þrotabúa gömlu bankanna samhliða þessari vinnu.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.
Í framkvæmahópi um losun hafta eru Ingibjörg Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri alþjóðasamskipta og skrifstofu seðlabankastjóra, Eiríkur Svavarsson lögmaður, Sigurður Hannesson, doktor í stærðfrði, Benedikt Gíslason vélaverkfræðingur og Glenn Victor Kim, erlendur ráðgjafi stjórnvalda sem jafnframt er formaður hópsins. Þá hefur Lee Bucheit einnig sinnt ráðgjöf fyrir stjórnvöld en hann og Glenn Victor Kim hafa starfað saman undanfarin ár við ráðgjafastörf.
Í umfjölluninni er meðal annars haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marels, að fjármagnshöftin hafi ekki sjáanleg áhrif á daglegt líf fólks, en undir yfirborðinu séu höftin að „hafa mjög alvarleg áhrif á hagkerfið“ og grafa undan því.