Fjármálaeftirlitið (FME) segir ekkert benda til þess að þau gögn sem Víglundur Þorsteinsson sendi á fjölmiðla og þingmenn síðastliðin fimmtudag hafi lekið frá stofnuninni. „Fyrir liggur að þessi gögn voru til á fleiri stöðum en í Fjármálaeftirlitinu,“ segir í svari FME við fyrirspurn Kjarnans.
Á meðal þeirra gagna sem Víglundur sendi voru bráðabirgðareikningsyfirlit frá endurskoðunarfyrirtækjum þremur sem FME sendi inn á bankana til að fá yfirlit yfir stöðu þeirra. Í þeim kemur meðal annars fram hversu mikið af lánum ýmissa nafngreindra fyrirtækja voru afskrifaðar þar sem þau þóttu ekki innheimtanleg. Í bréfi sem Víglundur sendi Einari K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis, sagði hann að það hefði atvikast svo að „ókunnur aðili sem ég hef nefnt hinn „nýja litla símamann“ sendi mér alla stofnúrskurði FME um nýju bankana“.
Kjarninn fjallaði ítarlega um ásakanir Víglundar í síðustu viku.
Engin getur rannsakað nema FME
Kjarninn beindi fyrirspurn til FME um málið og spurði hvort verið væri að rannsaka lekann? Í svari FME kemur fram að stofnunin gefi almennt ekki svör við spurningum um mál sem eru, eða kunni að vera, til meðferðar hjá henni. „En ljóst er að ef um er að ræða brot gegn 58. gr. laga nr. 161/2002, getur enginn annar en FME staðið að frumrannsókn og kæru til lögreglu, sbr. 112. gr. í lögunum“. Sú grein snýr að bankaleynd.
Í svari FME segir einni að stofnuninni sé ekki kunnugt um að gögnin sem Víglundur sendi hafi lekið frá henni né bendi nokkuð til þess að svo hafi verið. „Fyrir liggur að þessi gögn voru til á fleiri stöðum en Fjármálaeftirlitinu,“ segir í svarinu.
Hafa gefið í skyn að birting brjóti gegn lögum
FME hefur ítrekað látið í það skína á undanförnum árum að stofnunin telji að birting slíkra gagna brjóti í bága við lög um bankaleynd. Í ágúst 2013 krafðist FME til að mynda að Kjarninn myndi fjarlægja skýrslu PwC um málefni Sparisjóðsins í Keflavík af vef sínum og vitnaði m.a. í lög um bankaleynd. Auk þess gaf FME í skyn að birting skýrslunnar gæti varðað við almenn hegningarlög.
Kjarninn hafnaði beiðni FME með þeim rökum að upplýsingarnar ættu erindi við almenning. FME aðhafðist ekki frekar gagnvart Kjarnanum. Skýrslan er enn aðgengileg á vef Kjarnans. Hana má lesa hér.