Fjármálaeftirlitið (FME) veitir ekki upplýsingar um hvort að sala á tíu prósent hlut í Símanum áður en útboð á hlutafé í honum fór fram sé til skoðunar hjá stofnuninni. Þetta kemur fram í svari Unnar Gunnarsdóttur, forstjóra FME, við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Þar segir Unnur að eftirlitið geti ekki veitt upplýsingar um hvort mál séu til meðferðar eða hvort það hyggist taka mál til skoðunar, fyrr en að málsmeðferð sé lokið. Þá verði upplýst um það í formi gagnsæistilkynningar. "Bent er á ríka trúnaðarskyldu Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum sem takmarkar möguleika stofnunarinnar til að tjá sig opinberlega um mál sem eru til meðferðar".
Bankasýslan hefur verið í sambandi við Kaupskil
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks hefur beint spurningum í níu liðum til Bankasýslu ríkisins vegna sölu Arion banka á eignarhlut í Símanum. Meðal þess sem þingmaðurinn spyr að er hvers vegna vildarviðskiptarvinum bankans hafi verið seldur hlutur í Símanum á undan öðrum á mun lægra gengi en í almennu útboði á 21 prósenta hlut í síðustu viku. Hann spyr einnig um hvert ferlið hafi verið þegar ákveðnum viðskiptavinum og stjórnendum Símans var boðið að kaupa hluti í fyrirtækinu á undan öðrum og hvort salan hafi mögulega falið í sér markaðsmisnotkun.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segir í samtali við Kjarnann að stofnunin muni svara fyrirspurn Guðlaugs. Engin ákvörðun hafi verið tekið innanhús um næstu skref en Bankasýslan, sem fer með 13 prósent hlut ríkisins í Arion banka, hafi verið í sambandi við Kaupskil, sem heldur á 87 prósent eignarhlut kröfuhafa gamla Kaupþings í bankanum, vegna málsins. Stjórn Kaupskila mun taka málið til umfjöllunar síðar í þessari viku og Reynir Axelsson, stjórnarformaður Kaupskila, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að til greina komi að beina fyrirspurnum til bankans varðandi söluferlið en stjórnin hafi ekki tekið neina afstöðu ennþá.
Keyptu á lægra verði í aðdraganda útboðs
Almennu hlutafjárútboði Arion banka á 21 prósenta hlut í Símanum lauk í síðustu viku og verða bréf félagsins tekin til viðskipta í Kauphöllinni á morgun. Mikil umframeftirspurn var í útboðinu og seldust bréfin á meðalgenginu 3,3 krónur á hlut.
Áður, í ágúst síðastliðnum, var gengið frá sölu fimm prósenta hlutar í félaginu á genginu 2,5 til Orra Haukssonar, forstjóra Símans, og fleiri stjórnenda félagsins auk annarra fjárfesta. Í aðdraganda útboðsins seldi Arion banki síðan vildarviðskiptarvinum sínum samtals fimm prósenta hlut á genginu 2,8 krónur. Alls átti bankinn 38 prósenta hlut í Símanum, sem hann eignaðist eftir endurskipulagningu félagsins árið 2012, og stendur því eftir með undir tíu prósent eignarhlut.