Það er ólíðandi að fáir útvaldir búi að sérkjörum á sölu Arion banka í hlutum í Símanum. Engin þolinmæði er fyrir slíku í samfélaginu og málið er klúður.
Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og fréttastofa RÚV greinir frá. Hann bendir á að sem fjármálaráðherra hafi hann ekki beina aðkomu að málinu heldur sé það í höndum Bankasýslu ríkisins. Hann hafi þó skoðun á málinu. „Það er alveg augljóst og ætti að vera mönnum ljóst, að það er engin þolinmæði fyrir því í íslensku samfélagi að það fái einhverjir að sitja að sérkjörum þegar að menn eru að höndla með verðmæti. Og í þessu tilviki þá er það mjög sterk upplifun manna að það hafi fáir útvaldir fengið að búa að sérkjörum,“ segir Bjarni í samtali við fréttastofu RÚV.
Eitt af því sem taka eigi frá hrunárunum sé að gæta þurfi að jafnræði og gagnsæi þegar verið sé að höndla með jafn mikil verðmæti eins og eru undir í málinu. „Og ég verð að lýsa ákveðinni furðu á því að þegar að svona stór viðskipti eiga sér stað þá séu með mjög skömmu millibili hægt að finna kaupendur að sama hlutnum, eða hlut í sama félaginu, þar sem að munar jafn miklu og á við hér, þ.e.a.s. yfir 30% munur þegar að hluturinn fer í sölu. Þannig að mér finnst þetta vera ákveðið klúður þetta mál,“ segir Bjarni.
Bankasýslan á engin svör
Síminn var skráður á hlutabréfamarkað í síðustu viku, í kjölfar almenns útboðs Arion banka á 21 prósenta hlut í fyrirtækinu. Áður hafði bankinn selt fimm prósenta hlut til stjórnenda Símans og meðfjárfesta annars vegar og vildarviðskiptavina bankans hins vegar á um 30 prósent lægra gengi en raunin varð í útboðinu. Fram hefur komið að hópurinn sem keypti fyrstur, leiddur af Orra Haukssyni forstjóra Símans, hafi samanstaðið af innlendum og erlendum fjárfestum auk framkvæmdastjórum hjá Símanum. Meðal fjárfesta í hópnum voru Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson. Þeir keyptu kjölfestuhlut í Högum af Arion banka fyrir skráningu félagsins á hlutabréfamarkað í lok árs 2011.
Arion banki hefur verið gagnrýndur fyrir hvernig staðið var að sölunni. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sendi Bankasýslu ríkisins spurningarlista í níu liðum þar sem meðal annars var spurt hvort salan hafi mögulega falið í sér markaðsmisnotkun. Bankasýslan fer með 13 prósenta hlut í Arion banka.
Bankasýslan kom fyrir fjárlaganefnd í gær og sagðist ekki búa yfir upplýsingum til að svara spurningum þingmannsins. Í frétt RÚV um málið segir að samkvæmt upplýsingum frá Bankasýslunni verður skoðað hvort og þá hvernig hægt sé að afla þeirra.