Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sendi starfsfólki fjármálaráðuneytisins kveðju í gær. Með kveðjunni, sem var sett fram í korti, fylgdi haugur af orkubitum. Í kortinu, sem Eygló birti mynd af á Facebook-síðu sinni í gær, var starfsfólk á skrifstofu opinberra fjármála hvatt til að klára kostnaðarmat á frumvörpum hennar um uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis og um aukin húsnæðisstuðning fyrir leigjendur. „Vonandi munu þessir orkubitar hjálpa ykkur við að meta áhrifin á ríkissjóð og þjóðarbúskapinn að hjálpa þeim allra fátækustu að fá öruggt húsaskjól,“ segir í kortinu.
Elsa Lára Arnardóttir, þingkona Framsóknarflokksins, skildi eftir ummæli við færsluna þar sem hún fjallar um verðtrygginguna. Þar segir Elsa Lára að hana verði að afnema. „Það er nú eitt málið sem tekur sinn tíma innan fjármálaráðuneytisins. Hefur verið fast þar í of langan tíma og nú þarf að fara ýta meira á það,“ skrifar Elsa Lára.
Ljóst er að hin beina ýtni á starfsmenn á skrifstofu opinberra fjármála hefur farið öfugt ofan í ansi marga. Kannski ættu Eygló og Elsa Lára að beina spjótum sínum, og orkubitum, frekar að samstarfsflokki sínum í ríkisstjórn fremur en að embættismönnum. Starfsmenn fjármálaráðuneytisins starfa enda undir pólitísku valdi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Hann ætti að geta hreyft við afgreiðslu ofangreindra mála ef pólitískur vilji væri fyrir því.