Engin athugun hefur farið fram að hendi fjármála- og efnahagsráðuneytisins um hvort það verð sem greitt var fyrir hlut Landsbankans í greiðslukortafyrirtækinu Borgun hafi verið hæsta verð sem hægt væri að fá fyrir hlutinn. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir það Bankasýslu ríkisins að svara fyrir söluna og hvort söluferlið á hlutnum samræmist eigendastefnu ríkisins gagnvart Landsbankanum.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Bjarna Benediktssonar við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, sem birt var í dag.
Hluturinn seldur bakvið luktar dyr
Landsbankinn, sem er í 98 prósent eigu íslenska ríkið, seldi hlutinn í Borgun til félagsins Eignarhaldsfélagið Borgun slf., sem leitt er af manni sem heitir Magnús Magnússon. Aðdragandi þeirra var þannig að Magnús og stjórnendur Borgunar, sem eru á meðal nýrra eigenda, áttu hugmyndina að kaupunum, viðruðu hana við stjórnendur Landsbankans og hópurinn fékk í kjölfarið að kaupa hlutinn í Borgun. Þessi eign ríkisbankans var ekki auglýst og öðrum áhugasömum kaupendum var ekki gefið tækifæri til að bjóða. Kaupverðið var 2,2 milljarðar króna. Verðið sem Eignarhaldsfélagið Borgun slf. greiddi fyrir hlutinn þykir lágt, bæði í innlendum og erlendum samanburði.
Kjarninn greindi frá því í lok nóvember að bankaráð Landsbankans hafi verið meðvitað um söluna og að hann hefði ekki farið í gegnum formlegt söluferli. Engu að síður taldi það rétt að selja hlutinn með þessum hætti, á bakvið luktar dyr til þess fjárfestahóps sem hafði sýnt áhuga á því að kaupa hlutinn. Athygli hefur vakið að á meðal þeirra sem tilheyra fjárfestahópnum eru Einar Sveinsson og sonur hans Benedikt Einarsson. Einar er föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Þeir voru auk þess viðskiptafélagar um árabil, en Bjarni hætti afskiptum að viðskiptum í lok árs 2008.