Kjarninn hefur verið óþreytandi í því, frá því hann hóf starfsemi fyrir rúmlega tveimur árum, að benda allt það góða sem er að gerast í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þá ekki síst hjá frumkvöðlum sem með nýsköpun efla atvinnulífið og stuðla að framþróun hagkerfisins. Það er fullt tilefni til.
Nýsköpunar- og frumkvöðlasetrið Klak Innovit er nú í för með öðrum norrænum frumkvöðlasetrum undir merkjum Slush viðburðarins í New York, sem fer fram þessa dagana. Markmið ferðarinnar er að kynna norræna sprotasamfélagið betur á austurströnd Bandaríkjanna. Frumkvöðlasetur hvers lands hefur auk þess valið tvö sprotafyrirtæki frá hverju landi til að koma með og kynna sig fyrir bandarískum fjárfestum og fjölmiðlum. Sprotafyrirtækin TagPlay og Breakroom verða fulltrúar Íslands.
Eitt þeirra fyrirtækja sem kynnir starfsemi sína í tengslum við Slush viðburðinn er hið sænska Toborrow, sem Sofie Lundström stofnaði. Það fyrirtæki byggir á hugmynd um að almenningur láni litlum og meðalstórum fyrirtækjum fé til vaxtar, og hefur náð miklum árangri á skömmum tíma. Í kynningartexta um Toborrow segir Sofie að fjögur af hverjum fimm störfum í Svíþjóð séu hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það er staðreynd sem má halda meira á lofti, því hluföllin eru svipuð á Íslandi.
Mikill kraftur einkennir nýsköpunarstarf á Norðurlöndum sem þrátt fyrir fámenni, samtals 26 milljónir íbúa, hafa náð miklum árangri, ekki síst á sviði hugbúnaðarfyrirtækja. Því til sönnunar má nefna að það fyrirtæki sem náð hefur í mesta fjármagnið af öllum fyrirtækjum í Evrópu á þessu ári, 526 milljónir Bandaríkjadala, tæplega 70 milljarða króna, er hugbúnaðarfyrirtækið Spotify. Það er stofnað í Stokkhólmi og er þar með glæsilegar höfuðstöðvar.
Vonandi tengst norrænum sprotum að ná eyrum fjárfesta í Bandaríkjunum, sem margir hverjir eru tilbúnir að styðja við metnaðarfull verkefni, þó áhættan sé mikil.