"Það er hrun yfirvofandi í íslensku heilbrigðiskerfi ef af verður," segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, í Fréttablaðinu í dag þar sem hún er spurð um viðbrögð við þeim tíðindum að fjöldi hjúkrunarfræðinga ætli sér að segja upp störfum vegna lagasetningar sem Alþingi samþykkti á laugardag að setja á verkföll stéttarinnar.
Sigríður segir að þegar hafi borist uppsagnir fyrir helgi og að hún reikni með enn fleirum þegar hjúkrunarfræðingar mæti til vinnu í vikunni. Reiðin sé mikil innan stéttarinnar vegna lagasetningar á verkfall þeirra og langlundargeð hjúkrunarfræðiga sé að þrotum komið. "Hjúkrunarfræðingar eru hryggjarstykki í íslensku heilbrigðiskerfi og ég hef heyrt í mjög sérhæfðum hjúkrunarfræðingum að þeir einstaklingar muni segja upp í stórum stíl.," segir Sigríður.
Allir á vaktinni búnir að segja upp
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Sesselju Haukdal Friðþjófsdóttur, gjörgæsluhjúkrunarfræðing á gjörgæslu Landsspítalans í Fossvogi, sem er með 30 ára starfsreynslu í þremur löndum. Þar segir hún að allir hjúkrunarfræðingarnir sem voru með henni á vakt í gær, alls sex, ætli að segja upp störfum. Hún viti um mjög marga aðra sem séu að íhuga uppsögn.
Sesselja var ein þeirrar sem mættu á þingpallanna þegar mælt var fyrir lögum á verkfallaðsgerðir Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh)."Ég sat grátandi á þingpöllunum og hefði eflaust ekki treyst mér til þess að mæta til vinnu sama kvöld. Í [gær]morgun var hins vegar létt yfir mér þegar ég kom til vinnu því þessari miklu óvissu í mínu lífi er nú lokið - ég er búin að leggja inn mína uppsögn og byrjuð að skipuleggja framhaldið," segir Sesselja við Morgunblaðið. Hún hefur þegar hefur fengið starfstilboð frá Noregi.
Veruleiki sem stofnanir þurfa að takast á við
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir í Fréttablaðinu að þær stofnanir sem verða fyrir uppsagnarhrinum muni nú þurfa að taka á þeim vanda ef hjúkrunarfræðingar fara að segja upp í stórum stíl. "Það er leitt ef til þess þarf að koma [...]Brýnasta úrlausnarefnið var að tryggja öryggi sjúklinga. Uppsagnir hjúkrunarfræðinga eru veruleiki sem stofnanirnar þurfa svo að takast á við."
BHM hefur boðað málsókn vegna lagasetningar þingsins og segir það brot á stjórnarskrá að afnema samningsrétt félagsins.