Vinnumálastofnun áætlar að í lok þessa árs verði 16.900 erlendir ríkisborgarar starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Gangi spáin eftir verður þetta annar mesti fjöldi starfandi erlendra ríkisborgara í sögunni. Árið 2007 voru erlendir ríkisborgarar á íslenskum vinnumarkaði um 16.300 talsins og árið 2008 voru þeir tæplega 18.200. Morgunblaðið greinir frá spá Vinnumálastofnunar í dag. Í umfjöllun blaðsins segir að styrking krónunnar og mikil hækkun launa á Íslandi sé meðal þeirra þátta sem geri landið eftirsóknarvert.
Haft er eftir Karli Sigurðssyni, sérfræðingi hjá Vinnumálastofnun, að áætlunin sé hófsöm en ársmeðaltal erlendra starfsmanna verði um 16.700 manns. Vöxtur í ferðaþjónustu og byggingageiranum muni líklegast ráða mestu um hver aukningin verður á næstu misserum.
Í samanburði við önnur Evrópuríki eru meðalárslaun í evrum um 31.600 evrur á Íslandi. Launin eru hærri í sjö löndum. Í Svíþjóð, Bretlandi, Hollandi og Danmörku eru þau á bilinu 33 til 34 þúsund evrur á ári, í Lúxemborg eru þau um 38 þúsund evrur, í Noregi eru þau rúmlega 46 þúsund evrur og í Sviss eru launin að meðaltali 61,5 þúsund evrur á ári, samkvæmt tölum Eurostat og Morgunblaðið birtir í dag.
Samkvæmt nýjustu birtingu Hagstofunnar hefur atvinnuleysi minnkað nokkuð milli ára á Íslandi og mældist 3,8 prósent í ágúst síðastliðnum, samanborið við 4,7 prósent í ágúst 2014. Gögn Hagstofunnar byggja á svokallaðri vinnumarkaðsrannsókn en skráð atvinnuleysi í ágúst síðastliðnum hjá Vinnumálastofnun var 2,6 prósent.