Hælisumsóknum á Íslandi hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Í fyrra bárust 172 umsóknir en árið 2009 voru þær 35 alls. Þær hafa því fimmfaldast á fjórum árum. Þetta kemur fram í ársskýrslum Útlendingastofnunar fyrir árin 2011 til 2013.
Stofnunin hefur ekki birt slíkar skýrslur um nokkurra ára skeið en birtir nú þrjár í einu. Í tilkynningu frá Útlendingastofnun kemur fram að skýrslugerðin hafi setið á hakanum undanfarin ár vegna álags hjá stofnuninni. Hægt er að lesa þær hér.
Einungis 16 prósent fengu hæli í fyrra
Í skýrslunum má sjá að hælisumsóknum hefur fjölgað um 50 prósent frá ári til árs frá árinu 2009. Þar kemur einnig fram að saxað hafi verið á hinn svokallaða málahala, samansafni ólokinna mála hjá stofnuninni. Í lok árs 2012 hafi um 80 málum verið ólokið hjá Útlendingastofnun en þau hafi verið 56 í lok árs 2013.
Tíðni veitinga hælis er mjög mishá eftir árum. 2011 fengu 67 prósent þeirra sem óskuðu eftir hæli hérlendis slíkt og ári síðar 41 prósent. Í fyrra fengu einungis 16 prósent þeirra sem sóttu um hæli á Íslandi slíka veitingu. Samkvæmt tilkynningu Útlendingastofnunar skýrist þetta „að miklu leyti af stórum hópum hælisleitenda frá öruggum Evrópuríkjum, einkum Albaníu og Króatíu“. Það sem af er árinu 2014 hefur veitingarhlutfallið verið um eða yfir 50 prósent.