Nýjustu skoðanakannanir hafa verið mikið áfall fyrir stjórnarflokkanna, sem mælast saman með rétt um þriðjungs fylgi. Þróun á fylgi við þá minnir mjög á það sem átti sér stað hjá síðustu ríkisstjórn, sem tapaði trúnaði kjósenda jafn og þétt út kjörtímabilið. Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafði setið í tvö ár, í apríl 2011, var sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna 36,5 prósent. Í sama mánuði hafði þjóðin auk þess hafnað Icesave-samningi sem var þeirri ríkisstjórn mjög erfitt mál. Núverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er með 33 prósent fylgi þegar kjörtímabil hennar er hálfnað, eða minna en hin óvinsæla vinstri stjórn var með eftir jafn langan starfstíma. Það er því á brattan að sækja hjá ríkisstjórninni að ná tiltrú þjóðarinnar næstu tvö ár ætli hún sér áframhaldandi líftíma eftir næstu kosningar.
En vandi stjórnarflokkanna, og raunar alls fjórflokksins, er meiri og flóknari en sá sem heildarfylgið sýnir. Gallup birti í gær á Facebook síðu sinni hvernig atkvæði myndu skiptast eftir aldurshópum ef kosið yrði nú. Þar kom í ljóst að fylgi Pírata og Bjartar framtíðar er hærra eftir því sem kjósendur eru yngri á meðan að fylgi Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknar eykst með hækkandi aldri. Raunar vekur mikla athygli að 38 prósent kjósenda undir fertugu myndu kjósa Pírata og 28 prósent þeirra sem eru á aldrinum 40-59. Flokkurinn er langstærstur í báðum aldurshópum. Og enn meiri athygli vekur að Píratar mælast með 21 prósent fylgi hjá þeim sem eru 60 ára og eldri, en í umræðunni er oft látið sem að einungis ungt fólk vilji kjósa Pírata til að sýna óánægju sína gagnvart hinum hefðbundnu flokkum. Svo virðist alls ekki vera.
Ef einungis fólk undir fertugu, framtíð landsins, mætti kjósa í dag þá væri fjórflokkurinn allur einungis með 49 prósent atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn, Vinstri græn og Samfylking næðu því varla meirihluta saman hjá þeim aldurshópi.