Tæplega 40 prósent allra starfandi íslenskra lækna eru búsettir erlendis. Samkvæmt upplýsingum frá Læknafélagi Íslands búa 731 af 1.831 læknum erlendis og um 1.100 þeirra hérlendis. Miðað er við lækna sem eru með lækningaleyfi og eru yngri en 70 ára. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Í fréttinni segir að félagið hafi upplýsingar um 406 íslenska lækna í Svíþjóð, 132 í Noregi, 94 í Bandaríkjunum, 57 í Danmörku, 29 í Bretlandi, tíu í Hollandi, tvo í Þýskalandi og einn í Ástralíu. Læknafélagið hafði ekki upplýsingaar um hvort læknarnir væri allir í fulla starfi. Í Morgunblaðinu segir að eitthvað sé um að læknar sem skráðir eru hérlendis vinni erlendis í fullu starfi eða í hlutastarfi.
Margir ætla ekki að koma heim
Hluti þeirra íslensku lækna sem starfa erlendis eru við sérfræðinám. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans þá ætlar stór hluti þeirra ekki að snúa heim að loknu sérnámi heldur starfa áfram erlendis, miðað við núverandi starfsaðstæður lækna á Íslandi. Þetta hefur komið fram í óformlegum könnunum sem læknar í sérnámi hafa gert í sínum hópi.
Ekki var hægt að nálgast upplýsingar um hversu margir læknar sem eru erlendir ríkisborgarar starfi á Íslandi.
Hjúkrunarfræðingar fara tímabundið
Virkir meðlimir í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem eru búsettir hérlendis eru 3.959. Í þeim hópi eru meðlimir félagsins sem eru komnir á eftirlaun. Alls voru 493 félagsmenn búsettir erlendis.
Í Morgunblaðinu segir hins vegar að talsvert algengt sé að íslenskir hjúkrunarfræðingar færu tímabundið til starfa í öðrum löndum en störfuðu að öðru leyti hérlendis. Félag íslenskra hjúkrunarfræðingar heldur ekki utan um slíkar vinnuferðir.