Lögreglan á Suðurnesjum hefur fjögur fjársvikamál til rannsóknar. Þrír menn sitja í gæsluvarðhaldi og einn í farbanni vegna þessara mála sem talin eru nema mörgum milljónum króna. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni er mönnunum ætlað að hafa notað stolnar greiðslukortaupplýsingar til að versla flugmiða.
Í málunum fjórum höfðu mennirnir stolin greiðslukortanúmer, upplýsingar um korthafa, heimilisföng og jafnvel netföng og símanúmer eigenda kortanna. Lögreglan telur uppruna þessara upplýsinga vera af vefnum; sölusíðum sem hafa orðið fyrir árás tölvuþrjóta sem síðan hafa selt upplýsingarnar áfram.
Síðan í lok árs 2014 hefur lögreglan á Suðurnesjum haft níu ætluð fjársvikamál til meðferðar. I öllum tilfellum reyndu erlendir menn að greiða fyrir flugmeiða með stolnum greiðslukortaupplýsingum. Auk þess hefur þrisvar fundist búnaður til afritunar greiðslukortanúmera og til framleiðslu á greiðslukortum við tollskoðun í Leifsstöð.
Lögreglan á Íslandi er í samstarfi við Evrópulögregluna, Europol, gegn fjársvikum með stolin greiðslukortanúmer. Á aðgerðardögum samstarfsins í júní, þar sem lögregluyfirvöld, flugfélög og kortafyrirtæki tóku þátt, bárust 222 tilkynningar um grunsamlegar kortafærslur víða um heim. 130 mann svoru handteknir á flugvöllum, þar af einn hér á landi.