Í fyrra voru greiddir fjórtán milljarðar til eigenda Framtakssjóðsins vegna sölu eignarhluta sjóðsins og hafa tæplega 32 milljarðar verið greiddir til eigenda frá stofnun hans, en árið 2014 var fimmta starfsár hans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Framtakssjóðnum.
Áætlað gangvirði eigna Framtakssjóðsins var metið á a.m.k. 49,4 milljarðar króna í árslok 2014 og hagnaður af rekstri sjóðsins var 436 milljónir króna, að því er segir í tilkynningu. „Arðsemi Framtakssjóðsins frá stofnun hans hefur numið yfir 30% á ári og öllum hagnaði er skilað til eigenda sjóðsins sem eru lífeyrissjóðir og Landsbankinn og þar með almenningur í landinu“ segir í tilkynningu frá sjóðnum.
Eignarhlutir sjóðsins í fyrirtækjum eru færðir á kostnaðarverði. Sjóðurinn hefur, í samvinnu við endurskoðendur félagsins, lagt mat á áætlað gangvirði eignarhluta félaga í eignasafni sjóðsins og er metið að það sé ekki undir 49,4 milljörðum króna, en bókfært verð sömu eigna er 28,1 milljarður króna, að því er segir í tilkynningu.
Stærsti einstaki eigandi Framtakssjóðsins er Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 19,9 prósent hlut, en Landsbankinn er næststærsti eigandinn með 17,7 prósent hlut.