Tæplega sex af hverjum tíu Íslendingum eru þeirrar skoðunar að refsa eigi fyrir kaup á vændi og um fjórir af hverjum tíu vilja að sala á vændi sé einnig refsiverð. Þetta kemur fram í könnun sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í apríl síðastliðnum og greint er frá í Fréttablaðinu í dag.
Í Íslandi hefur sænska leiðin svokallaða verið fest í lög, en samkvæmt henni er kaup á vændi refsivert en sala á því refsilaus. Mikil umræða hefur verið um málið að undanförnu en Kjarninn greindi frá því í lok júlí að Amnesty International væru að íhuga að setja sér stefnu um að afglæpavæða eigi vændi. Það hefði komið fram í drögum um stefnu sem lögð var fyrir heimsþing samtakana sem fór fram um liðna helgi. Fjölmargir hafa gagnrýnt hugmyndina, meðal annars sjö íslensk kvennasamtök og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Alls segja 58 prósent aðspurðra í könnun Félagsvísindastofnunar að þeir telji að kaup á vændi eigi að vera refsivert, 24 prósent eru á móti því en 18 prósent hafa ekki myndað sér skoðun. Þegar spurty var um hvort sala á vændi ætti að vera refsiverð svöruðu 38 prósent já, 34 prósent nei en 28 prósent hvorki né.
Mikill kynjamunur var á svörum í könnuninni. Tæplega fimm af hverjum tíu konum (46 prósent) kvenna vilja að hægt sé að refsa fyrir sölu á vændi á meðan þrír af hverjum tíu körlum hafa þá skoðun. Þá segjast 78 prósent kvenna vera fylgjandi því að kaup á vændi séu refsiverð en 39 prósent karla eru þeirrar skoðunar.
Úrtak könnunarinnar var 1.200 manns og svarhlutfall var sextíu prósent.