Eins og Kjarninn greindi frá á föstudaginn hyggst Umhverfisstofnun kæra bandarískt vélhjólateymi og þrjá leiðsögumenn á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Rider til lögreglu vegna utanvegaaksturs og umhverfisspjalla á hálendi Íslands í september.
Ferðaþjónustufyrirtækið, sem ætlar að bjóða ferðamönnum upp á skipulagðar mótorkross vélhjólaferðir næsta sumar, annaðist skipulagningu fimm daga ferðar Bandaríkjamannanna, en um prufuferð var að ræða. Myndband af ferðinni, þar sem mennirnir sjást stunda umfangsmikinn utanvegaakstur í námunda við Heklu, hefur vakið athygli á netinu. Að mati Umhverfisstofnunar varðar það sem sést á myndbandinu við lög um náttúruvernd, en meint brot mannanna varða allt að fjögurra ára fangelsi.
Vísaði ásökunum um umhverfisspjöll á bug
Eigandi Arctic Rider, Jóhannes Sveinbjörnsson, vísaði ásökunum um umhverfisspjöll á bug í samtali við Kjarnann á föstudaginn. "Það er mjög særandi að heyra viðbrögð fólks við þessari ferð, því við keyrðum aldrei út fyrir slóða. Við keyrðum á malarvegum, en það liggja jeppavegir út um allt land eins og flestir Íslendingar vita. Fólk sem fer aldrei út úr 101 veit þetta ekki, en svo drullar það yfir mann eins og maður sé búinn að eyðileggja landið," sagði Jóhannes í samtali við Kjarnann.
"Við leggjum mikið upp úr því að fara aldrei út fyrir slóða. Það var einu sinni sem einn okkar fór út úr slóða, og þá lét ég hann laga grasið, ég var svo harður á þessu. Ég sagði líka við hópinn að ef einhver færi út fyrir slóða þá yrði ekki hjólað meira þann daginn. Ég er ekkert stressaður yfir þessu, því ég veit að við gerðum ekkert rangt."
"So much fun just rippin' around!"
Áðurnefndur Jóhannes hefur undanfarið verið duglegur við að birta myndbönd af sér og félögum sínum á Youtube að stunda vélhjólaakstur í náttúru Íslands. Umhverfisstofnun hefur borist fjöldi ábendinga um myndböndin, og mun stofnunin sömuleiðis vísa þeim til rannsóknar lögreglu.
Á einu myndbandinu, sem Jóhannes setti inn á Youtube þann 25. maí síðastliðinn, má sjá hvar hann og fleiri vélhjólamenn stunda gengdarlausan utanvegaakstur, að því er talið er á svæði í námunda við Heklu, þar sem þeir sjást aka yfir mosa og annan viðkæman gróðursvörð. Í mynbandinu heyrst þegar sá sem tekur myndbandið segir: "So much fun just rippin' around!" Sjón er sögu ríkari.
Umhverfisstofnun lítur athæfi mannanna mjög alvarlegum augum, og vinnur nú að því að setja saman kæru sem stofnunin hyggst senda lögreglu innan skamms.