Alls voru rúmlega tvö þúsund félög og fyrirtæki nýskráð á fyrstu sex mánuðum ársins, en það er 47 prósent aukning frá sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu um nýskráningar fyrirtækja og félaga.
Samkvæmt tölunum var langstærstur hluti nýju fyrirtækjanna einkahlutafélög, en einnig var nokkuð um skráningar samlagshlutafélaga, húsfélaga og félagasamtaka. Líkt og sést hér að neðan var fjöldi nýskráninga nokkuð stöðugur áður en faraldurinn hófst, en tók að fjölga skömmu eftir að fyrsta bylgja hans var liðin í maí í fyrra.
Síðan þá fjölgaði nýskráningum nokkuð jafnt og þétt þangað til þær náðu hámarki í mars í fyrra, en þá voru 456 félög og fyrirtæki skráð.
Mesta aukningin í nýskráningum hefur verið á meðal fyrirtækja í fjármála- og vátryggingastarfsemi, en þær voru alls 224 á fyrstu sex mánuðum ársins, miðað við 87 á sama tíma í fyrra. Aukningin hefur einnig verið mikil ef miðað er við fyrri hluta ársins 2019, en þá voru þær þriðjungi færri heldur en í ár.
Næstmesta aukningin á þessu tímabili var á meðal fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, en nýskráningum þar fjölgaði um 122 á milli ára. Þetta er einnig mikil aukning ef miðað er við fyrstu sex mánuði ársins 2019, þar sem þær voru 90 færri en núna þá.
Þrátt fyrir mikinn samdrátt í ferðaþjónustunni frá upphafi heimsfaraldursins fjölgaði nýsrkáðum fyrirtækjum nokkuð í rekstri gististaða og veitingarekstri, en þau voru um 30 fleiri í ár heldur en í fyrra og árið 2019.