Hæstiréttur Íslands staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, frá 23. desember, um frávísun á máli sem fjármögnunarfyrirtækið Lýsing höfðaði á hendur Fjármálaeftirlitinu (FME) vegna meintrar ólögmætrar gjaldtöku.
Lýsing krafði FME um endurgreiðslu á tæpum 22 milljónum króna sem eftirlitið gerði Lýsingu að greiða vegna tveggja sérfræðinga sem skipaðir voru í mars og apríl árið 2010 til að hafa sértækt eftirlit með rekstri fjármögnungarfyrirtækisins.
Umboðsmaður Alþingis gerði athugasemdir við gjaldtökuna
Lýsing byggði kröfu sína á ákvæðum laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Þar er meðal annars kveðið á um frumkvæði stjórnvalda að slíkum endurgreiðslum. Í apríl 2011 kvartaði Lýsing undan ákvörðun FME til umboðsmanns Alþingis í apríl 2011, sem lauk skoðun sinni 27. ágúst 2013. Í niðurstöðu umboðsmanns taldi hann grundvöll gjaldtöku FME ófullnægjandi og beindi þeim tilmælum til eftirlitsins að leitast yrði við að rétta hlut Lýsingar.
FME krafðist frávísunar á málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem málið hefði ekki verið höfðað innan tiltekins málshöfðunarfrests sem kveðið er á um í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og í lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Héraðsdómur tók undir það og vísaði málinu frá eins og áður segir, sem Hæstiréttur Íslands hefur nú staðfest.
Segir FME hunsa sjónarmið umboðsmanns
„FME kemur sér hjá því að rétta hlut Lýsingar eins og umboðsmaður Alþingis hafði mælst til að eftirlitið gerði vegna ólögmætra gjalda af þess hálfu og þrátt fyrir ákvæði laga um frumkvæðisskyldu stjórnvalda um að endurgreiða borgurum og lögaðilum oftekin gjöld,“ segir Þór Jónsson upplýsingafulltrúi Lýsingar aðspurður um viðbrögð fjármögnunarfyrirtækisins við dómnum. „Í stað þess að fá efnislegan dóm um málið, eins og FME lýsti yfir við umboðsmann að væri tilgangurinn með því að fara með málið fyrir dóm, bar eftirlitið fyrir sig málshöfðunarfresti. Álit umboðsmanns Alþingis stendur óhaggað eftir sem áður, gjaldið var ólögmætt. Í tilviki Lýsingar er um að ræða tæplega 22 milljónir króna, en viðkomandi stjórnvald hefur ákveðið að hunsa sjónarmið umboðsmanns.“
Þetta er annað málið sem Lýsing höfðar gegn FME og er vísað frá dómi þar sem lögmætur málshöfðunarfrestur er liðinn. Það mál snérist um ákvörðun FME þar sem Lýsingu var gert að tilkynna öllum viðskiptavinum sínum með sambærilega lánasamninga um dóm Hæstaréttar þar sem skilmálar lánasamninga Lýsingar voru túlkaðir þannig að verðtrygging og breytilegir vextir væri ekki hluti af lánasamningnum.