Íbúðaskuldir heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eru að meðaltali hæstar hjá þeim sem búa í póstnúmeri sem hefst á tölustafnum tveimur. Það eru meðal annars Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður og Reykjanesbær. Að meðaltali er hlutfallið 318 prósent, þ.e. íbúðaskuldir eru að meðaltali 318 prósent af ráðstöfunartekjum íbúanna.
Hagfræðideild Landsbankans vekur athygli á þessu í dag og vísar til umfjöllunar í síðustu fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans. Í umfjöllun hagfræðideildarinnar er birt eftirfarandi mynd sem sýnir skuldir heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eftir póstnúmerum.
Næst hæstar eru skuldirnar í póstnúmerum sem byrja á tölustafnum 1 en lægstar eru þær í póstnúmerum sem byrja á 4, þ.e. Vestfirðir, og 7, þ.e. Austurland. „Almennt virðast skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum lækka eftir því fjær höfuðborgarsvæðinu farið er, með þeirri undantekningu að einstaklingar í póstnúmerum sem byrja á 6 skulda meira en búast mætti við. Skýrist það væntanlega af því að Akureyri er á því svæði,“ segir í umfjölluninni á vefsvæði bankans.