Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna (BHM), segir enga neyð fyrir hendi sem réttlæti lagasetningu Alþingis á verkföll aðildarfélaga bandalagsins. Þetta segir formaður BHM í samtali við fréttastofu RÚV.
Í athugasemdum með lagafrumvarpinu sem kvað á um frestun verkfallsaðgerða einstakra aðildarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir að brýnt sé að bregðast við til að afstýra tjóni og neikvæðum áhrifum á samfélagið. Þá hafi verkföllin haft verulega neikvæð áhrif á almannahagsmuni og sett verkefni ríkisins í uppnám. Í athugasemdunum segir enn fremur að ríkir almannahagsmunir og/eða réttindi annarra standi einnig til þess að bundinn verði endir á verkföll hjá starfsmönnum sýslumanns og dýralæknum.
Niðurlægjandi lagasetning
Formaður BHM tekur ekki undir þau sjónarmið að áhyggjur af ástandi sjúklinga réttlæti aðgerðir stjórnvalda. „Af því að sú vá er ekki fyrir dyrum,“ sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir í samtali við fréttastofu RÚV. „Þegar farið er í verkfallsaðgerðir þá starfa undanþágunefndir og þær hafa það hlutverk að koma í veg fyrir að neyð skapist og það hafa þær gert núna í nærri tíu vikur, bæði í heilbrigðisþjónustu og í annarri þjónustu eins og til dæmis þjónustu dýralækna og lögfræðinga, þannig að neyðin er ekki sú sem stjórnvöld eru að halda fram.“
Aðspurð um hljóðið í sínum félagsmönnum, að vera neyddir til að snúa aftur til vinnu svaraði formaður BHM: „Það er þungt hljóð í félagsmönnum BHM, þetta eru þung skref og fólk er reitt. Það hefur reynt mjög á langlundargeð þess og lagasetning sem þessi er niðurlægjandi og það er aldrei gott í samskiptum að niðurlægja fólk.“
Eins og kunnugt er hyggst BHM stefna íslenska ríkinu vegna lagasetningarinnar og hefur ráðið hæstaréttarlögmanninn Ástráð Haraldsson til að gæta hagsmuna bandalagsins í málinu.