„Á síðasta ári voru kjarasamningar megin þorra launafólks framlengdir með mjög hóflegum launahækkunum. Með þeim samningi var skapað tækifæri fyrir stjórnvöld til að byggja samfélag jafnaðar, þar sem hagsmunir heildarinnar voru settir í forgrunn. En í stað þess að nýta þetta einstaka tækifæri og leggjast á eitt með launafólki, með því að vinna að bættum hag almennings, héldu stjórnvöld inn á braut sérhagsmuna og ójafnaðar.“ Þetta sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB í ræðu sinni á Akureyri í dag, í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. „Við stöndum frammi fyrir alvarlegustu deilum á vinnumarkaði í áraraðir.“
Í ræðu sinni sagði formaður BSRB að laun afmarkaðra hópa hafi hækkað langt umfram það sem fjölmennustu og lægst launuðustu hóparnir hafi samið um, ásamt því að ráðist var í niðurskurðaraðgerðir á flestum sviðum opinberrar þjónustu og skattahækkanir á matvæli. Með aðgerðum sínum í þágu hinna fáu efnameiri hafi stjórnvöld og atvinnurekendur hafnað því að vinna sameiginlega á grunni stöðugleika og samstöðu.
Leiðréttingin bara fyrir afmarkaðan hóp
Þá gerði Elín Björg nýleg ummæli Bjarna Benediktssonar, efnahags- og fjármálaráðherra, að umfjöllunarefni í ræðu sinni. „Fjármálaráðherra veltir því upp í alvöru hvort gengið hafi verið of langt í því að jafna kjör fólks. Þessi ummæli lætur hann falla eftir að hafa lækkað auðlindagjöld á útgerðir, lagt af auðlegðarskatt á þá efnamestu og boðað að til standi að afnema orkuskatt á stóriðjuna sem mun spara álfyrirtækjunum rúman einn og hálfan milljarð árlega í greiðslur til samfélagsins. Ofan á allt hefur matarskattur á almenning verið hækkaður verulega og 80 milljarðar af opinberu fé fóru til leiðréttingar húsnæðislána afmarkaðs hóps. Í þeirri aðgerð voru stórir hópar skildir eftir og fengu enga leiðréttingu sinna mála þótt aðgerðin ætti að heita almenn.“
Þá kallaði formaður BSRB eftir áframhaldandi samtakamætti verkalýðsfélaganna. „Samstaðan er það afl sem getur breytt samfélagi til hins betra. Okkur tókst það fyrr á tímum, og okkur tekst það í framtíðinni. Saman getum við reist betra samfélag, réttlátara samfélag.“