Kristján Snorri Ingólfsson, formaður Flokks heimilanna, hefur stefnt Pétri Gunnlaugssyni, útvarpsmanni á Útvarpi Sögu, fyrir meiðyrði. Kristján Snorri krefst þess að ummæli, sem Pétur lét falla í stefnu málsins undir höndum.
Umrædd ummæli Péturs Gunnlaugssonar, sem Kristján Snorri Ingólfsson formaður Flokks heimilanna vill að verði dæmd dauð og ómerk.
Illdeilur sem hófust með ólögmætri stjórnarbreytingu
Eins og kunnugt er var Pétur Gunnlaugsson í forsvari fyrir Flokk heimilanna í síðustu Alþingiskosningum. Flokkur heimilanna hét áður Lýðveldisflokkurinn, sem stofnaður var árið 2010. Í tilkynningu um stofnun flokksins til fyrirtækjaskrár, var Kristján Snorri skráður formaður, en á árinu 2013 var samþykkt að flokkurinn myndi bjóða sig fram til Alþingiskosninga. Með tilkynningu til fyrirtækjaskrár í mars árið 2013 var nafni flokksins breytt í Flokk heimilanna. Í júní sama ár barst fyrirtækjaskrá svo tilkynning um að ný stjórn hefði verið kosin hjá flokknum, en þá var Pétur Gunnlaugsson skráður formaður Flokks heimilanna.
Stjórnarmaður í flokknum, bróðir Kristjáns Snorra Ingólfssonar, mótmælti breytingunni á stjórn flokksins í júlí árið 2013, en með ákvörðun fyrirtækjaskrár var talið að breytingin hafi verið lögmæt. Kristján Snorri og fleiri stjórnarmenn skutu þá ákvörðun fyrirtækjaskrár til þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis sem felldi svo úr gildi ákvörðun fyrirtækjaskrár þann 5. maí síðastliðinn, þar sem breytingin á stjórn Flokks heimilanna hafi hvorki verið í samræmi við samþykktir flokksins né meginreglur félagaréttar. Áðurnefnd frétt á Eyjunni, þar sem Pétur lét ummælin falla sem honum hefur nú verið stefnt fyrir, fjallaði að miklu leyti um úrskurð ráðuneytisins.
Sakaði formann Flokks heimilanna um þjófnað
Flokkur heimilanna fékk nokkurt fylgi í síðustu Alþingiskosningum, um 5.700 atkvæði, eða um þrjú prósent atkvæða. Þar sem framboðið náði 2,5 prósenta lágmarkinu átti það í kjölfar kosninganna rétt á úthlutun úr ríkissjóði. Í áðurnefndi frétt Eyjunnar sakaði einmitt Pétur Gunnlaugsson Kristján Snorra Ingólfsson um að stinga umræddri úthlutun í sína eigin vasa. Samkvæmt frétt Eyjunnar frá 4. júlí síðastliðnum er um 40 milljónir króna að ræða, í fjórum hlutum.
Í stefnu málsins segir Kristján Snorri að ummæli Péturs hafi verið ærumeiðandi og vegið að mannorði hans, enda hafi hann verið sakaður um fjárdrátt og umboðssvik með þeim. Þá kemur fram í stefnunni að Pétri hafi verið birt bréf frá lögmanni Kristjáns Snorra í október þar sem þess var krafist að Pétur drægi ummæli sín til baka og bæðist afsökunar á sama vettvangi og ummæli hans birtust, og að hann greiddi eina milljón króna í miskabætur til Kristjáns Snorra. Samkvæmt stefnu málsins svaraði Pétur aldrei bréfinu.
Pétur Gunnlaugsson heldur sjálfur upp vörnum í málinu, en hann lagði fram ítarlega greinargerð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 8. janúar síðastliðinn. Hann hafnar með öllu ásökunum sem á hann eru bornar í málinu og krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.