Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar-stéttarfélags, gagnrýnir Má Guðmundsson seðlabankastjóra harðlega fyrir afstöðu hans til komandi kjaraviðræðna, í viðtali við héraðsfréttablaðið Skarp á Húsavík sem kom út í gær.
Seðlabankastjóri hefur sagt að mikilvægt sé að komandi kjarasamningar feli ekki í sér óhóflegar launahækkanir, og ekki sé raunhæft að laun hækki um meira en 3,5 prósent á ári. Samtök atvinnulífsins hafa tekið í svipaðan streng og sagt að svigrúm til launahækkanna á þessu ári sé ekki meira en þrjú til fjögur prósent.
Millistjórnendur og stjórnendur stjórna launaskriðinu
„Þetta er bara gömul tugga. Seðlabankastjórinn virðist vera eins og björninn, hann heldur sér vakandi þegar verkalýðshreyfingin er að móta sína kröfugerð fyrir láglaunafólkið í landinu. Þess á milli skríður bankastjórinn í híði sitt og sefur vært, svo sem þegar kennarar, flugmenn og læknar hafa verið að semja um sín kjör. Staðreyndin er sú að millistjórnendur og stjórnendur hafa hækkað gríðarlega í launum og stjórna í raun og veru launaskriðinu,“ segir formaður Framsýnar í viðtali við Skarp. Hann segir að von sé á kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands líti dagsins ljós í lok mánaðarins.
Samtök atvinnulífsins fá líka sinn skerf af gagnrýni formanns Framsýnar. „Stjórnarformaður Samtaka atvinnulífsins er jafnframt forstjóri Icelandair Group. Þessi ágæti maður talar núna um nauðsyn þess að semja um „hóflegar“ kjarabætur. Hann samdi nýverið við flugmenn um miklar launahækkanir í reykfylltu bakherbergi. Ég skora á forstjórann að birta þá samninga, þannig að almenningur geti áttað sig á raunveruleikanum.“
Þá segir Aðalsteinn Árni að ekki komi til greina að semja um prósentuhækkanir, krafist verði krónutöluhækkanna í komandi kjaraviðræðum. „Prósentuhækkanir koma þeim hæst launuðu helst til góða, sá sem er með milljón á mánuði fær miklu meira í vasann, en sá sem er með 300 þúsund krónur. Ég er harður á því að samið verði um krónutöluhækkun, en ekki prósentuhækkun. Ég vona að Starfsgreinasambandið standi fast á þessari kröfu.“
Hagnaður skili sér líka til starfsmanna
Formaður Framsýnar segir svigrúm til umtalsverðra launahækkanna til staðar þrátt fyrir varnaðarorð seðlabankastjóra og Samtaka atvinnulífsins.
„Stór hluti sjávarútvegsfyrirtækja er að skila miklum hagnaði, þannig að þar á bæ er klárlega gott svigrúm til að hækka launin verulega. Ferðaþjónustan hefur vaxið gríðarlega og veltan sömuleiðis. Stóru fyrirtækin skila eigendum sínum myndarlegum hagnaði og himinhá laun sumra stjórnenda hafa vakið athygli, svo ekki sé talað um ríflegar arðgreiðslur til hluthafa. Verslun og þjónusta virðist sömuleiðis vera á ágætum gír, sem og stóriðjan. Á þetta komum við til með að benda í komandi kjaraviðræðum, tölurnar tala sínu máli og almennt starfsfólk þessara fyrirtækja á að njóta góðs af velgengninni.“
„Munum aldrei skrifa upp á 3-4 prósenta launahækkun“
Aðalsteinn Árni á von á hörðum vetri framundan í kjarabaráttunni. „Það er hafður vetur framundan og ég bið almennt launafólk um að búa sig undir átök. Við getum ekki enn eina ferðina setið eftir í launamálum og horft nánast á allar aðrar stéttir hækka miklu meira.“
Aðspurður um hvers konar aðgerðir launafólks séu í farvatninu, svaraði Aðalsteinn Árni í samtali við blaðamann Skarps: „Það er hægt að fara ýmsar leiðir, ég er ekkert endilega að tala um allsherjarverkfall. Verkalýðshreyfingin getur vel sýnt klærnar með áberandi og afgerandi hætti, ef henni er misboðið. Auðvitað vona ég að ekki þurfi að grípa til einhverra aðgerða, en eins og landið liggur núna stefnir augljóslega í harðar kjaraviðræður. Við munum aldrei skrifa upp á þriggja til fjögurra prósenta launahækkun.“