Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á von á því að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra leggi fram nýja tillögu varðandi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu á vorþingi. Þetta kom fram í máli forsætisráðherra í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Aðspurður um stöðu aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu svaraði Sigmundur Davíð: „Það er orðið ósköp lítið eftir af umsókninni. Það var farið þarna í að ræða einhverja kafla, en sú vinna heldur ekki gildi sínu lengur bæði vegna þeirra hröðu breytinga sem eru að eiga sér stað í Evrópusambandinu og vegna þess að það er ekki í samræmi við stefnu stjórnvalda að fallast á allt það sem síðasta ríkisstjórn hefði verið tilbúin til að fallast á. Þannig að því leytinu til erum við á byrjunarreit.“
Þá sagði forsætisráðherra að Evrópusambandið hafi áréttað að engum nýjum löndum verði hleypt inn í sambandið næstu fimm árin. „Og þetta hefur kannski orðið til þess að menn hafa kannski aðeins slakað á í þessum Evrópusambandspælingum.“
Sigmundur Davíð segir aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu hafa fallið hratt niður lista forgangsmála vegna þess á undanförnum misserum. „En þó breytir það ekki því að auðvitað er það ekki æskileg staða að svona stórt mál sé skilið eftir í lausu lofti.“
Aðspurður um hvort málið verði áfram í öndunarvél, eins og þáttastjórnandinn Sigurjón M. Egilsson orðaði það, svaraði forsætisráðherra: „Það er eins og ég segi ekki æskilegt að svona stórt mál sé skilið eftir í lausu lofti og ég held að það væri þess vegna ágætlega á því að þingið á einhvern hátt áréttaði hvernig það sér þetta og utanríkisráðherrann hefur boðað það, eða að minnsta kosti haldið því opnu, að hann komi með nýja tillögu um málið sem ég geri ráð fyrir að yrði þá væntanlega einhvern tímann fljótlega á þessu ári.“ Aðspurður um hvort hann búist við tillögunni á væntanlegu vorþingi, kvað forsætisráðherra svo vera.
„Hann (utanríkisráðherra) metur þá núna hvernig staðan er milli Íslands og Evrópusambandsins og hvað þurfi að koma fram í ljósi þess af hálfu þingsins.“