Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur friðlýst tónleikastaðinn Nasa við Austurvöll. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, og tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson, sem lengi hefur barist fyrir því að Nasa fái að lifa áfram sem tónleikastaður, fagnar þessu sérstaklega á Facebook síðu sinni og birtir bréfið frá forsætisráðherra þessu til staðfestingar. Sigmundur Davíð vonast til þess að salurinn verði áfram nýttur til þess að halda tónleika.
Í friðlýsingunni segir að ekki megi hrófla við upprunalegum innréttingum, innviðum eða skipulagi á rými salarins eins og hann er í dag. Áformað er að reisa hótel en borgaryfirvöld telja ekki að friðlýsingin þurfi að koma í veg fyrir það. Málið verður þó skoðað með borgarlögmanni á næstu dögum, að því er fram kom í frétt Stöðvar 2.
„Ég vona svo sannarlega að þetta sé ávísun á það að Nasa verði áfram tónleikastaður. Það er nóg pláss fyrir fleiri tónleikastaði í miðborg Reykjavíkur, af þessari gerð, af þessari stærð. Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir Nasa,“ sagði Páll Óskar í samtali við Stöð 2.