„Það er sláandi að sjá þróun skipulagsmála og framkvæmda í miðborg Reykjavíkur þessa dagana. Líklega hefur gamli bærinn í Reykjavík ekki staðið frammi fyrir jafnmikilli ógn og nú frá því fyrir deiluna um Bernhöftstorfuna fyrir hátt í hálfri öld.“
Með þessum orðum hefst pistill forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, á heimasíðu hans. Í pistlinum fjallar hann um skipulagsmál í Reykjavíkurborg í máli og myndum, og segir þróunina uggvænlega.
Sigmundur Davíð beinir sjónum meðal annars að Iðnaðarbankahúsinu og segir hann það vera tákn um hugarfarið sem ríki í skipulagsmálum á fyrstu áratugunum eftir seinni heimsstyrjöld, þar sem skort hafi á virðingu fyrir sögulegri byggð og sígildum arkitektúr. Húsið hefði hentað ágætlega sem skrifstofubygging við Ármúla en húsið geri lítið til að styrkja heildarmynd gamla miðbæjarins.
„Fyrir fáeinum árum var svo skipulagi reitsins breytt svo að hægt yrði að fjarlægja Iðnaðarbankahúsið og reisa í staðinn nýbyggingar sem féllu betur að umhverfinu eða væru jafnvel til þess fallnar að styrkja það. Til þess að stuðla að slíkri framkvæmd var byggingarmagn reitsins tvöfaldað, hvorki meira né minna, og leyft niðurrif gömlu brjóstsykursverksmiðjunnar sem átti að fá að standa samkvæmt gamla skipulaginu. Með því varð byggingarmagn reitsins meira en æskilegt hefði verið en það var talið þolanlegt svo hægt yrði að losna við bankakassann,“ segir í greininni.
„Ég og fleiri vorum reyndar þeirrar skoðunar að það gæfi augaleið að byggja fallegt turnhús sem færi vel við hlið Iðnaðarmannahússins (turnhússins á horninu). T.d. mætti endurreisa Hótel Ísland eða Uppsali á lóðinni eða byggja fallegt steinhús sem félli vel að öllum nálægum byggingum.“ Annað hafi komi á daginn þegar teikningar birtust af áformaðri nýbyggingu. Þær sýndu „þá uggvænlegu þróun sem orðið hefur í skipulagsmálum borgarinnar á síðustu misserum“.
Þá gagnrýnir forsætisráðherra einnig byggingaráform við hinn enda Lækjargötunnar og segir að gríðarstór skrifstofu- og verslunarhús muni gína yfir gamla bænum og leysa Esjuna af sem bakgrunnur miðborgarinnar.
Hagur í því að láta hús drabbast niður
„Allt það versta við skipulagsnálgun eftirstríðsáranna skýtur nú upp kollinum á ný. Eitt af því er sá neikvæði hvati sem skipulagið og framkvæmd þess fela í sér. Skilaboðin eru þessi: Eigendur gamalla húsa sem fjárfesta í húsunum sínum og gera þau fallega upp með ærnum tilkostnaði, fá ekkert fyrir það. En eigendur húsa sem láta þau drabbast niður og eyðileggjast geta vænst þess að fá leyfi til að rífa þau og byggja ný og stærri hús í staðinn. Því stærra sem húsið er, og því ódýrara, þeim mun meiri verður hagnaðurinn. Þess vegna eru kríaðir út eins margir fermetrar og mögulegt er og þar sem fæst leyfi fyrir nýbyggingum er iðulega öll lóðin grafin út og stundum jafnvel grafið undan garði nágrannans (eins og dæmi eru um). Svo er byggt alveg að lóðarmörkunum,“ segir í pistlinum og birtar eru myndir af ónýtum húsum í miðbæ Reykjavíkur.
„Afleiðingin er sú að sá sem fjárfesti í að fegra húsið sitt ber ekki aðeins kostnaðinn á meðan nágranninn hagnast á að rífa sitt hús, hann lendir auk þess í að umhverfisgæði hans eru skert og verðmæti eignarinnar rýrnar. Honum er með öðrum orðum refsað. Þetta er ákaflega hættulegt hvatakerfi sem hefur leikið margar borgir grátt og setur mark sitt á miðborg Reykjavíkur þessa dagana.“
Sérstaða í hinu sögulega
„Við munum að sjálfsögðu áfram byggja hús samkvæmt tísku hvers tíma, hér eins og annars staðar, en það eru ekki þau sem gera okkur sérstök. Þau koma okkur ekki á kortið. Það gerir byggðin sem er sérstæð og öðruvísi en annars staðar. Enda leggja menn víða mikið upp úr því að passa upp á menningararfinn, það sem gerir staði sérstaka,“ segir Sigmundur Davíð sem telur sérstöðu Reykjavíkur liggja í hinu sögulega.
„Við Íslendingar eigum lægsta hlutfall allra Evrópuþjóða af sögulegri byggð. Auk þess erum við ein fámennasta þjóð Evrópu svo að við eigum ekki mikið af sérstæðum byggingum í samanburði við önnur lönd. Það er því sorgleg staðreynd að við höfum lengst af staðið nágrannaþjóðunum að baki hvað varðar vernd sögulegrar byggðar.
Sérkenni Reykjavíkur eru lítil hús, oft bárujárnsklædd, og rýmið milli húsanna. Þ.e. auk húsanna sjálfra eru það bakgarðarnir og það hvernig húsum er raðað á milli gatna sem gefa gamla bænum í Reykjavík sinn sérstaka og aðlaðandi blæ. En þessu er nú markvisst verið að eyða. Það er eins og að hvar sem finnst bil milli húsa vilji menn fylla í það og auka nýtingarhlutfallið. Byggja alveg út að lóðarmörkum og sem mest upp í loft þ.a. ef allir gerðu slíkt hið sama myndi byggðin samanstanda af samfelldum steypuklumpum sem næðu frá einni götu til annarrar.“
Sigmundur Davíð segir það vera hlutverk borgaryfirvalda að leggja línurnar í skipulagsmálum á þann hátt að það skapi jákvæða hvata en ekki neikvæða, ýti undir fegrun umhverfisins og vernd menningararfsins. Yfirvöld þurfi að gæta jafnræðis og umfram allt forðast að menn séu verðlaunaðir fyrir að ganga á umhverfisgæði nágrannans en refsað fyrir að leggja til umhverfisins.
„Ef borgaryfirvöld vanrækja það hlutverk þarf þar til gerð stofnun að grípa inn í á sama hátt og fjármálaeftirlitið á að passa upp á að menn fari ekki út af sporinu á fjármálamarkaði og heilbrigðiseftirlit fylgist með því að matur og umhverfi séu ekki hættuleg,“ segir í lok pistilsins.