Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kallar tvo blaðamenn Fréttablaðsins, Kolbein Óttarsson Proppé og Snærós Sindradóttur, fulltrúa stjórnarandstöðuflokka í kjallaragrein í Fréttablaðinu í dag. Í greininni fjallar forsætisráðherra um leiðréttinguna svokölluðu, niðurfærslu á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána hjá 94 þúsund einstaklingum um 80 millarða króna, sem hann segir að vel hafi tekist til með.
Sigmundur Davíð segir síðan að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna "hvort heldur þeir tjá sig á þingi eða á leiðarasíðu Fréttablaðsins, eiga erfitt með að sætta sig við velheppnaða leiðréttingu. Tveir hinna herskárri skrifa um málið á síðunni í gær. Stjórnarandstöðudálkurinn „Frá degi til dags“ heldur fram þeim hreinu ósannindum að leiðréttingin renni að mestu til hátekjufólks (raunin er þveröfug -ólíkt 110% leiðinni) og í leiðara er fullyrt að fjármagn til leiðréttingarinnar hafi ekki verið sótt til kröfuhafa eins og lofað hafði verið. Hvernig menn geta fengið þetta út er mér hulin ráðgáta. Bankaskattur á slitabú fallinna fjármálafyrirtækja var lagður á til að brúa það bil í tíma sem yrði á milli lausnar á vanda þjóðarbúsins vegna slitabúa bankanna og leiðréttingarinnar."
Dálkinn "Frá degi til dags", sem birtist á leiðarasíðu Fréttablaðsins í gær, skrifaði Snærós Sindradóttir. Leiðara blaðsins í gær skrifaði Kolbeinn Óttarsson Proppé.