Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mun ekki legga fram skýrslu um framkvæmd upplýsingalaga á þessu þingi eins og áformað hafði verið. Þetta kemur fram í uppfærðri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem var birt á vef forsætisráðuneytisins eftir að þing kom saman eftir jólafrí. Ráðherra hafði áður sagst ætla að leggja skýrsluna fram á vorþingi.
Í upplýsingalögum sem tóku gildi í byrjun ársins 2013 kemur fram að forsætisráðherra „skal reglulega gefa Alþingi skýrslu um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um hvað áunnist hafi varðandi aukið aðgengi almennings að upplýsingum.“ Á þessum rúmu tveimur árum frá gildistöku laganna hefur ekki verið gefin skýrsla af þessu tagi.
Markmiðið með lögunum var að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna. Í þeim er meðal annars kveðið á um aðgang almennings að upplýsingum og um að stjórnvöld eigi að veita almenningi upplýsingar um starfsemi sína að eigin frumkvæði.
Ætlaði að taka saman eigi síðar en núna
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurði Sigmund Davíð um það í maí í fyrra hvenær hann hyggðist gefa Alþingi skýrslu um framkvæmd laganna, eins og kveðið er á um. Í júní svaraði Sigmundur Davíð fyrirspurninni og sagði að ákveðið hefði verið að fyrsta skýrslan um efnið yrði tekin saman „eigi síðar en í ársbyrjun 2015 og lögð fram á Alþingi á vorþingi það ár. Hún mun þá gefa yfirlit yfir þau tvö ár sem liðið hafa frá gildistöku nýrra upplýsingalaga,“ sagði í svarinu.
Þar kom einnig fram að skýrslan ætti að innihalda sundurliðaðar upplýsingar um starf úrskurðarnefndar um upplýsingamál á þessum tveimur árum. „Þar komi fram hvaða hópar kæri helst til nefndarinnar, hver sé málshraði hjá nefndinni og hvert sé efni og umfang þeirra mála sem hún leysir úr.“ Þá átti að gefa yfirlit yfir veitingu undanþága og gefið yfirlit yfir starf ráðuneytisins þegar kemur að birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda.
Í dag lagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, fram aðra fyrirspurn til forsætisráðherra um málið. Þar spyr hún ráðherra hvers vegna hann hafi ekki enn gefið Alþingi skýrslu um framkvæmd laganna og hvenær hann hyggist gefa þinginu skýrsluna.