„Við ákváðum að hafa samband við æðstu menn Íslands eftir að við heyrðum af áformum um að lagningu sæstrengs til Íslands frá Ameríku, og svo var líka einhver stemmning í kringum Apple varðandi þessi gagnaver, þannig að við sendum erindi þar sem við buðum fram aðstoð ykkar til að koma á fundi milli íslenskra stjórnvalda og Apple ef áhugi væri fyrir hendi í þessum efnum.“ Þetta segir Bjarni Ákason framkvæmdastjóri Epli, sem er umboðsaðili tæknirisans Apple á Íslandi, í samtali við Kjarnann.
Í yfirlýsingu forsætisráðuneytisins vegna frétta um að forsvarsmenn Eplis hafi haft samband við ráðuneytið og embætti forseta Íslands í marsmánuði síðastliðnum vegna hugsanlegra gagnavera Apple á Íslandi segir: „ Í mars 2014 sendi fyrirtækið Skakkiturn ehf. tölvupóst til forsætisráðuneytisins þar sem óskað var eftir aðstoð forsætisráðherra við að koma á fundi milli Skakkaturns ehf. og Apple Inc. í Bandaríkjunum. Skakkiturn ehf. er viðurkenndur söluaðili hér á landi á tölvubúnaði frá Apple og rekur verslanir undir heitinu Epli.
Þá segir í yfirlýsingu forsætisráðuneytisins að starfsmaður Skakkaturns ehf. hafi óskað eftir aðstoð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við að koma á fundi milli ráðamanna Apple og Skakkaturns. „Í tölvupóstinum kom fram að forsvarsmenn Skakkaturns ehf. hefðu verið í sambandi við fólk í höfuðstöðvum Apple, sem væri reiðubúið að koma á fundi ef forsætisráðherra hugnaðist að heimsækja höfuðstöðvar Apple í Kaliforníu.
Forsætisráðherra sinnir árlega fjölda erinda frá innlendum og erlendum aðilum til að liðka fyrir fjárfestingum og atvinnuuppbyggingu hér á landi. Ekki hefur hins vegar tíðkast að forsætisráðherra ferðist sérstaklega milli landa til að koma á fundum milli einstakra fyrirtækja og því taldi ráðuneytið að ekki væri hægt að verða við ósk starfsmanns Skakkaturns ehf.
Ráðuneytið harmar að tölvupóstinum frá Skakkaturni ehf. hafi ekki verið svarað og kannar nú ástæður þess.“
Tilkynning ráðuneytisins byggð á misskilningi
„Forsætisráðuneytið hefur eitthvað misskilið erindið okkar miðað við yfirlýsingu þess í dag. Við áttum engra hagsmuna að gæta í þessu máli. Við erum ekkert í þessum bransa heldur seljum bara tölvur, en við erum óneitanlega með sambönd við Apple. Við vildum bara kanna hvort það væri áhugi fyrir hendi hjá íslenskum stjórnvöldum að komast í samband við Apple í tengslum við gagnaver. Apple var hvorki þá né nokkurn tímann síðar inn í þessu máli. Við sendum bara þetta bréf, og svo þegar við fengum ekkert svar, þá vorum við ekkert að pæla í þessu meira. Svo sáum við bara um daginn að Danmörk hefði unnið lottóið,“ segir framkvæmdastjóri Epli.
Bjarni segir að Epli hafi hvorki sent Íslandsstofu samhljóða erindi né ítrekanir á forsætisráðuneytið og embætti forseta Íslands til að ýta á eftir svörum. „Sko, það verður hver að velja sér það sem hann hefur áhuga á. En mér hefði fundist allt í lagi ef menn hefðu send okkur tölvupóst og þakkað okkur fyrir frumkvæðið, jafnvel bara til að segja sama og þegið.“
Bjarni vildi ekki afhenda Kjarnanum umrætt erindi þegar eftir því var leitað.
Erindið sem forsvarsmenn Skakkaturns sendu á forsætisráðuneytið í mars (Samkvæmt frétt í tíufréttum RÚV í gærkvöldi).
Uppfært klukkan 16:34. Í erindið sem fréttastofa RÚV birti í gærkvöldi vantaði eina málsgrein, sem hefur nú verið sett á sinn stað. Kjarninn fékk sent erindi Eplis frá forsætisráðuneytinu. Umrædd málsgrein er feitletruð í textanum.
Góðan dag,
Núna vinnur fyrirtækið Emerald Networks að lagningu sæstrengs sem mun sjá um gagnaflutning á milli Bandaríkjanna við Evrópu með viðkomu hér á landi. Sæstrengurinn sem ber heitið Emerald Express mun verða afkastamesta og hraðasta tengingin á milli N-Ameríku og Evrópu fyrir gagnaflutning.
Þar með öðlast Ísland algjöra sérstöðu varðandi staðsetningu fyrir gagnaver og ekki síst vegna þeirrar grænu orku og framboði hennar sem er í boði hérlendis.
Stórfyrirtæki í tölvu- og tæknigeiranum eru að horfa hingað til lands í auknum mæli í leit að vænlegum kostum fyrir stækkandi gagnaþörf.
Apple Inc. er annt um að vera fyrirtæki sem setur umhverfið í forgang og leggur sig fram við að finna umhverfisvænari leiðir í rekstri. Ísland er því fullkomin samstarfsaðili fyrir stofnun á gagnaverum með umhverfisvæna orkugjafa.
Um nokkurt skeið höfum við verið að benda forsvarsmönnum Apple á kosti þess að skoða ísland sem vænlegan kost fyrir gagnaver en einn helsti ókostuinn hefur alltaf verið skortur á sæstreng til N-Ameríku. Nú er orðið ljóst að sú hindrun verður ekki til staðar mikið lengur og höfum við því komist lengra með þessar viðræður.
Okkur langar að leita til forsætisráðherra eftir aðstoð við að koma á fundi við ráðamenn Apple í Bandaríkjunum til að vekja áhuga þeirra á að reisa gagnaver á Íslandi. Við erum í sambandi við fólk í höfuðstöðvum Apple sem er reiðubúið til að koma á fundi ef hæstvirtum forsætisráðherra hugnast að heimsækja höfuðstöðvarnar í Cupertino í Kaliforníu.
Það er augljóst að stóru tæknirisarnir munu koma til með að reisa gagnaver á Íslandi og þar með auka það forskot sem Ísland hefur nú þegar öðlast með framúrskarandi mannauði og þekkingu á þessu sviði.
Hugsanlega getur þessi fundur átt samleið með öðrum erindum forsætisráðherra til Bandaríkjanna. Einnig væri upplagt að taka til umræðu á slíkum fundi mikilvægi þjóðtungunnar í tækniveröldinni fyrir smáþjóðir á borð við Ísland, sérstöðu landsins sem tilraunamarkaðs sem og gríðarlega grósku í hugbúnaðarþróun.
Með von um góðar viðtökur.