Forsætisráðuneytið harmar það að tölvupósti, sem varðaði mögulega uppsetningu gagnavera frá Apple á Íslandi, hafi ekki verið svarað. Ráðuneytið segist vera að kanna ástæður þess að bréfinu, sem kom frá Skakkaturni efh., sem er viðurkenndur söluaðili Apple á Íslandi, var ekki svarað.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Þar kemur fram að Skakkiturn hafi sent tölvupóst til ráðuneytisins í mars 2014. Þar hafi verið óskað eftir aðstoð forsætisráðherra við að koma á fundi milli ráðamanna Apple og forsvarsmanna Skakkaturns ehf. Fólk í höfuðstöðvum Apple væri reiðubúið að koma á fundi ef forsætisráðherra hugnaðist að heimsækja höfuðstöðvar Apple í Kaliforníu.
Ráðuneytið taldi ekki hægt að verða við ósk starfsmanns Skakkaturns, enda tíðkist ekki að ráðherrann ferðist sérstaklega milli landa til að koma á fundum milli einstakra fyrirtækja, en forsætisráðherra sinni árlega erindum frá innlendum og erlendum aðilum til að liðka fyrir fjárfestingum og atvinnuuppbyggingu hér á landi.
Þá bendir ráðuneytið á að fjárfestingasvið Íslandsstofu sinni hundruðum fyrirspurna frá erlendum fjárfestum á hverju ári. Tölvupósturinn frá Skakkaturni hafi hins vegar ekki verið sendur til Íslandsstofu.