Nú ríkir óvenju mikil óvissa um framhald þingstarfa og ómögulegt er að segja til um framhaldið. Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, við RÚV.
Þingfundur hefst klukkan 13:30 í dag og þá þingfundardaga sem eftir eru verður þingfundur hafinn klukkan 10. Það er þó flestum ljóst að þetta mun ekki duga til að ljúka þinginu á réttum tíma, en samkvæmt starfsáætlun þingsins eru aðeins fimm og hálfur dagur eftir. Enn eiga stór mál eftir að koma inn í þingið.
Undanfarna daga hefur verið rætt um rammaáætlun, og þær tillögur meirihluta atvinnuveganefndar að bæta við virkjunarkostum í nýtingarflokk. Þessari umræðu verður haldið áfram í dag. „Það er auðvitað þannig að við erum að ræða hér mjög umdeilt mál sem menn hafa miklar skoðanir á og umræðurnar taka langan tíma og mér er bara lífsins ómögulegt að átta mig á því hversu langan tíma þessar umræður taka eða hvernig þinginu vindur fram allra næstu dagana“, segir Einar í samtali við RÚV. Hann segir rammaáætlun eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar og að allir hafi gert sér grein fyrir því að málið færi á dagskrá þingsins.