Vel á annað þúsund þátttakendur frá 50 löndum sækja Hringborð Norðurslóða - Arctic Circle, sem verður haldið í Hörpu 16. til 18. október næstkomandi.
Francois Hollande Frakklandsforseti mun flytja stefnuræðu þingsins og sérstakar sendinefndir á vegum Xi Jinping, forseta Kína, og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, munu kynna stefnu og aðgerðir ríkjanna í málefnum Norðurslóða. Forsætisráðherra Grænlands, Kim Kielsen, og nýr lögmaður í Færeyjum, Aksel V. Johannesen, munu og koma á þingið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arctic Circle, en háttsettir fulltrúar frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, Hvíta húsinu og öldungadeild Bandaríkjaþings munu fjalla um forystu Bandaríkjanna á Norðurslóðum, og sérstakur sendimaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, og sérfræðingar frá Rússlandi munu fjalla um framtíðarstefnu ríkisins.
„Þingið sækja fulltrúar frá fjölda landa í Evrópu og Asíu sem og frá öllum ríkjum Norðurslóða. Þeirra á meðal eru þjóðhöfðingjar, ráðherrar, embættismenn, vísindamenn, sérfræðingar, umhverfissinnar, athafnamenn, stjórnendur fyrirtækja, fjölmiðlafólk ásamt forystumönnum frumbyggjasamfélaga á Norðurslóðum,“ segir í tilkynningunni. Þá munu fjölmargar vísindastofnanir, háskólar og náttúruverndarsamtök senda fulltrúa, auk þess sem stjórnendur fjárfestingafyrirtækja munu kynna sínar áætlanir um umsvif.